Bjarkalundur Hótel Bjarkalundur er elsta sumarhótel á Íslandi.
Bjarkalundur Hótel Bjarkalundur er elsta sumarhótel á Íslandi.
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Hótel Bjarkalundur í Reykhólasveit er enn óseldur. Þrjú tilboð hafa fengist í fasteignina frá því hún var sett á sölu í vor.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Hótel Bjarkalundur í Reykhólasveit er enn óseldur. Þrjú tilboð hafa fengist í fasteignina frá því hún var sett á sölu í vor. Annars vegar hefur ekki náðst samkomulag um kaupverð og hins vegar hafa væntir kaupendur ekki náð að fjármagna kaupin. Óska eigendur því enn tilboða í hótelið sögufræga.

„Bjarkalundur er í útleigu og það er rekstur þar núna. Yfir vetrartímann, frá nóvember og fram í maí hefur ekki verið rekstur,“ segir Júlíus Jóhannsson, fasteignasali hjá Kaupsýslunni, sem hefur eignina á sölu.

Mikil tækifæri framundan

Í hótelbyggingunni sjálfri eru 19 herbergi, veitingasalur, eldhús, setustofa, bar, sjoppa, verslun og salernisaðstaða. Einnig eru við Bjarkalund sex gestahús og þjónustuhús fyrir tjaldstæði með salernis-, eldurnar- og sturtuaðstöðu. Land sem fylgir kaupunum er um 58,9 hektarar og þar af er Berufjarðarvatn um 15 hektarar.

Jóhannes segir mikil tækifæri felast í kaupum á Bjarkalundi. Í þeim efnum hafi áform um nýjan veg í Gufudalssveit mikið að segja og vegfarendum muni fjölga til muna.

„Þegar veginum verður breytt verða gríðarleg tækifæri þarna. Þá gæti Bjarkalundur orðið svipaður og Staðarskáli. Menn eru að kalla eftir breytingum á leiðinni, það liggur fyrir og það er hellingur af tækifærum þarna, gríðarmikið land o.s.frv.,“ segir hann.

Sögusviðið í gamanþáttaröð

Hótel Bjarkalundur hefur verið í rekstri frá árinu 1947 og er elsta sumarhótel á Íslandi, að því er fram kemur á vef hótelsins.

Í seinni tíð er Bjarkalundur einna þekktastur sem sögusvið Dagvaktarinnar, leikinnar gamanþáttaraðar frá árinu 2008, þar sem Jón Gnarr, Pétur Jóhann Sigfússon, Jörundur Ragnarsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir voru í aðalhlutverkum.