Lundabyggð Lífsbaráttan er erfið hjá lundanum um þessar mundir og margar fæðuöflunarferðir sem fuglarnir þurfa að fara til að ná sér í æti.
Lundabyggð Lífsbaráttan er erfið hjá lundanum um þessar mundir og margar fæðuöflunarferðir sem fuglarnir þurfa að fara til að ná sér í æti. — Morgunblaðið/RAX
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is „Við vorum að klára seinna lundarallið í Stórhöfða í Vestmannaeyjum og eru 46% unga enn á lífi.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Við vorum að klára seinna lundarallið í Stórhöfða í Vestmannaeyjum og eru 46% unga enn á lífi. 90% af ungunum sem ekki komast á legg, deyja fyrstu 10 dagana frá klaki, þannig að ég reikna með að mesta fækkunin sé yfirstaðin,“ segir Erpur Snær Hansen, starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, við Morgunblaðið.

Hann segir ábúðina í Höfðanum nú 73%, sem séu góðar fréttir. Varpárangurinn sé 0,46 ungar/egg og viðkoman sé því 0,33 ungar/varpholu, sem sé svipað og í fyrra.

„Ef allt heldur sem horfir erum við að sjá svipaðan pysjufjölda og var í fyrra. Þá var hann 4.800 pysjur,“ segir Erpur Snær sem reiknar með því að skoða varpholur í Eyjum um miðjan ágúst.

„Við fylgjumst með lundanum í 12 vörpum umhverfis landið og helsta fréttin er að sandsíli er ríkjandi fæða um allt land og eru Vestmannaeyjar þar með taldar,“ segir Erpur Snær.

Fimm ferðir í stað einnar

„Sílalirfur eru mjög seint á ferðinni, en lundinn sem og aðrar lífverur þurfa á því að halda að sílalirfurnar myndbreytist í 7 til 11 sm síli sem kallast „núllgrúppa“ og er hin hefðbunda fæða,“ segir Erpur Snær og bætir við að þyngdarmunurinn á lirfum og núllgrúppu valdi því að fullorðnir lundar þurfi að fara allt að fimm sinnum fleiri fæðuöflunarferðir með lirfur til að bera jafnmikla vigt í pysjuna og eina goggfylli af núllgrúppusíli.

Erpur Snær segir að sjórinn við Eyjar sé að kólna að sumarlagi en það gerðist einnig árið 1948.

Við kólnunina 1948 stórefldist sílastofninn auk þess sem makríllinn hvarf af Íslandsmiðum.

Skilgreiningar
á hugtökum
» Ábúð er hlutfall varphola sem orpið var í.
» Varpárangur er hlutfall eggja þar sem pysjur komast á legg.
» Viðkoma er hlutfall hola með uppkomnum pysjum. Margfeldi ábúðarhlutfalls og varpárangurs.
» Heildarfjöldi pysja er margfeldi viðkomu og heildarfjölda varphola.