Sveitasetur Hópurinn sem fór til Katalóníu dvaldi á glæsilegum stað.
Sveitasetur Hópurinn sem fór til Katalóníu dvaldi á glæsilegum stað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ferðaskrifstofa Valgerðar Pálsdóttur, Art Travel, býður upp á ferðir sem innihalda gjarnan námskeið í hinum ýmsu greinum. Nýlega fór hún með hóp í myndlistarferð til Katalóníu.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Valgerður Pálsdóttir rekur ferðaskrifstofuna Art Travel sem býður upp á persónulegar ferðir, innanlands sem utan. „Ég hafði lengi gengið með þann draum í maganum að sameina aðaláhugamálin mín: ferðalög, menningu og listir,“ segir Valgerður.

Ferðalög samtvinnuð áhugamálum

„Fólk sem hefur teiknað eða málað sem börn byrjar gjarnan að sinna áhugamálinu á nýjan leik um miðjan aldur. Í svona ferð getur fólk helgað sig námskeiðinu algjörlega, í nýju umhverfi. Upplifunin og innblásturinn á nýja staðnum ýta undir skapandi hugsun og það er gríðarlega mikilvægt,“ segir Valgerður.

Nýlega byrjaði hún að bjóða upp á ferðir á framandi slóðir ætlaðar Íslendingum. Námskeið í listgrein er gjarnan innifalið í ferðunum. Í maí fór hún t.a.m. með hóp í myndlistarferð til Katalóníu. „Við dvöldum á sveitasetri umkringdu vínekrum og boðið var upp á kennslu í vatnslitamálun hjá Keith Hornblower, myndlistarkennara frá Englandi.“ Að auki er ávallt farið í skoðunarferðir með leiðsögumanni til þess að kynnast heimafólki og menningunni, að sögn Valgerðar. Ferðirnar eru af ýmsum toga, en nýlega fór hún með hóp í jógaferð til Tenerife og var jóganámskeið innifalið í ferðinni.

Náttúran og menningin í fyrirrúmi

Ferðaskrifstofan hefur þó haft meiri starfsemi á Íslandi heldur en erlendis. Valgerður, sem er menntaður leiðsögumaður, hóf nýlega að bjóða upp á gönguferðir um heimabæinn sinn, Hafnarfjörð. Hún heldur m.a. listgöngur þar sem hönnuðir og listamenn eru heimsóttir og matargöngur milli nokkurra veitingastaða í miðbæ Hafnarfjarðar. „Ég legg áherslu á mannlífið og menninguna í landinu og hef t.d. boðið fólki heim í mat. Ég bý miðsvæðis í Hafnarfirði og kem gjarnan við heima hjá mér í gönguferðunum. Mun færri ferðamenn eru á götum Hafnarfjarðar heldur en í miðborg Reykjavíkur. Valgerður segir hins vegar að Hafnarfjörður eða „Bærinn í hrauninu“ búi yfir merkilegri sögu og ríku mannlífi.

„Það sem ég hef tekið eftir hjá ferðamönnum á Íslandi er að þeir fá jafnan lítil kynni af okkur Íslendingum. Þeir ferðast í kringum landið án þess að hafa kynnst einum Íslendingi. Þegar ég er sjálf að ferðast þá vil ég kynnast menningunni og fólkinu í landinu,“ segir Valgerður.

Valgerður tekur oft á móti fjölskyldum eða minni hópum og útbýr gjarnan ferðir eftir óskum ferðamanna.

„Langflestir koma til Íslands til þess að kynnast náttúrunni. Aðaláherslan er að sjálfsögðu íslensk náttúra en ég prjóna menningunni við ferðirnar,“ segir Valgerður. Af þeirri ástæðu hefur hún undirbúið dagsferðir frá Reykjavík á Reykjanes, Snæfellsnes og Borgarfjörð fyrir ferðamenn.

Byrjaði sem áhugaverkefni

Valgerður stofnaði fyrirtækið Art Travel árið 2010, á meðan hún var í fullu starfi sem námsráðgjafi. „Ég hef farið rólega í sakirnar og gat ekki hellt mér almennilega í reksturinn fyrr en 2013. Ég komst fljótlega í samstarf við FineArt í Osló og hóf að smíða ferðir fyrir Norðmenn hingað til Íslands.“ FineArt stendur fyrir myndlistarnámskeiðum og gefur út KUNST sem er eitt virtasta listatímaritið sem er gefið út á Norðurlöndunum. „Síðan þá hef ég tekið á móti fjölda hópa í ólíkar ferðir, ensku- og norskumælandi, sem eru miðaðar við menningu og listir.“ Eins og áður sagði hefur Art Travel nýlega byrjað að bjóða upp á ferðir fyrir Íslendinga á framandi slóðir, sem innihalda námskeið í hinum ýmsu greinum. „Í haust bjóðum við upp á ferð til Tenerife þar sem boðið verður upp á námskeið í skapandi skrifum og tvær Matar- og vínmenningarferðir til Katalóníu, sem hafa hlotið góðar viðtökur,“ segir Valgerður. Hægt er að fræðast frekar um ferðirnar á heimasíðunni, arttravel.is.