Hunt Ekki eins „sexy“ og Bond, en hann er spennandi.
Hunt Ekki eins „sexy“ og Bond, en hann er spennandi.
Mission: Impossible myndirnar eru hugsanlega besta hasarmyndaröð sem framleidd hefur verið.

Mission: Impossible myndirnar eru hugsanlega besta hasarmyndaröð sem framleidd hefur verið. Ekki misskilja mig, myndirnar hafa marga galla, söguþráður myndanna er oft óeftirminnilegur, önnur myndin í röðinni er arfaslök og aðalpersónu myndarinnar, Ethan Hunt, virðist alfarið skorta einkennandi persónuleika og baksögu.

Veikleikar myndanna fölna hins vegar í samanburði við styrkleika þeirra, því í heimi Mission: Impossible skipta söguþræðir og persónusköpun ekki máli, Tom Cruise skiptir máli.

Cruise gengur gjörsamlega af göflunum í Mission: Impossible, hann klífur veggi háhýsa, hangir utan á flugvélum og hleypur og hleypur og hleypur.

Tileinkun Cruise til að veita áhorfendum nær áþreifanlegan hasar jafnast aðeins á við brjálæði stórbrotinna áhættuatriðanna, sem Cruise framkvæmir sjálfur.

Fyrir Mission: Impossible - Fallout, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum í vikunni, lærði Cruise að halda niðri í sér andanum í rúmar sex mínútur, tók þyrluflugmannsréttindi og gerðist löggiltur fallhlífastökkvari.

Pétur Magnússon