[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Icelandair Group tapaði 25,7 milljónum dollara, jafnvirði 2,7 milljarða króna á öðrum fjórðungi þessa árs, samanborið við 15,5 milljóna dollara hagnað, jafnvirði 1,6 milljarða króna á núverandi gengi, yfir sama tímabil í fyrra. Félagið hefur ekki skilað tapi á öðrum fjórðungi síðan 2010. Þá nam tapið 161 milljón króna.

Heildartekjur samstæðunnar námu 399 milljónum dollara á fjórðungnum, jafnvirði tæplega 42 milljarða króna. Jukust þær um 9% frá fyrra ári þegar þær námu 367,3 milljónum dollara. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður aukist verulega og nam rúmum 384 milljónum dollara, 40,4 milljörðum króna, samanborið við 327 milljónir dollara árið á undan. Kostnaðurinn jókst því um 17,6% milli tímabila. Þar af jókst launakostnaður um 15,3% en flugrekstrarkostnaðurinn um 23%.

Eignir upp á 174 milljarða

EBITDA yfir fjórðunginn dróst saman um 64% frá fyrra ári. Nam hún 14,7 milljónum dollara, jafnvirði 1,5 milljarða króna en var 40,6 milljónir dollara eða tæpir 4,3 milljarðar króna á sama tíma 2017.

EBITDA-hlutfallið á fjórðungnum reyndist 3,7%, samanborið við 11% í sama fjórðungi í fyrra.

Um mitt árið námu eignir Icelandair Group 1.655 milljónum dollara, jafnvirði 174 milljarða króna og höfðu aukist um 16,3%. Skuldir félagsins stóðu í 1.126 milljónum dollara, jafnvirði ríflega 118 milljarða króna. Eigið fé félagsins var 529,7 milljónir dollara, jafnvirði 55,7 milljarða króna. Eiginfjárhlutfallið stóð í 32% og hafði lækkað um 2 prósentustig frá sama tíma ári fyrr.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þrýstingur á fargjöld, lakari sætanýting og einskiptiskostnaður vegna truflana í flugáætlun skýri lakari afkomu en á sama tíma í fyrra. Þá er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni að afkoman sé lakari en áætlanir hafi gert ráð fyrir.

„Spár okkar um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað mikið. Samkeppnin á mörkuðum hefur sjaldan verið meiri sem kemur fram með þessum hætti.“ Bendir hann þó á að félagið geri ráð fyrir að hækkun á verði aðfanga muni að lokum knýja flugfélögin til að hækka meðalverð. Hann segir að Icelandair sé í góðri stöðu til að takast á við áskoranir og að nýta þau tækifæri sem upp kunna að koma við þær krefjandi aðstæður sem séu uppi um þessar mundir í rekstri flestra flugfélaga.

Hefur tapað 6,3 milljörðum í ár

Á fyrri helmingi ársins hefur Icelandair tapað 60,3 milljónum dollara, jafnvirði 6,3 milljarða króna, samanborið við 2,1 milljarðs tap í fyrra. Tekjur félagsins námu yfir tímabilið tæpum 667 milljónum dollara, jafnvirði 70 milljarða króna og jukust um 13%. Rekstrarkostnaðurinn var 670 milljónir dollara, jafnvirði 70,4 milljarða króna og jókst um tæp 20% milli ára.