Ókyrrð Afkoma Icelandair er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Ókyrrð Afkoma Icelandair er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is „Við horfum líka á það að þegar við eignuðumst bréfin í Icelandair þá var verðið á hlut í félaginu umtalsvert lægra þannig að við erum ekki búin að tapa á þessari fjárfestingu sem slíkri.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Við horfum líka á það að þegar við eignuðumst bréfin í Icelandair þá var verðið á hlut í félaginu umtalsvert lægra þannig að við erum ekki búin að tapa á þessari fjárfestingu sem slíkri. En auðvitað er staða Icelandair áhyggjuefni og deyfðin sem ríkir á hlutabréfamarkaðnum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til þess að tap Icelandair á öðrum ársfjórðungi nam um 2,7 milljörðum króna, samkvæmt uppgjörstilkynningu félagsins sem gerð var opinber eftir lokun markaða í gærdag. Stærsti hluthafi félagsins er Lífeyrissjóður verslunarmanna með rétt tæplega 14% hlut. Guðrún segir sjóðinn fylgjast grannt með stöðu mála.

„Við fylgjumst vel með þeim félögum sem við erum hluthafar í. En við erum langtímafjárfestar og horfum því á þessa eign til langs tíma. Við erum búin að eiga þessi bréf í mörg ár og höldum ró okkar,“ segir Guðrún og heldur áfram: „Hlutur okkar í Icelandair er næststærsta hlutafjáreign Lífeyrissjóðs verslunarmanna.“

Krefjandi aðstæður í fluginu

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, sem er næststærsti hluthafi í Icelandair, með um 8% eignarhlut, hafði í gærkvöldi ekki náð að kynna sér uppgjörstilkynningu Icelandair nægjanlega vel og baðst því undan viðtali við blaðamann.

Þá er haft eftir forstjóra Icelandair í tilkynningu að aðstæður séu „vissulega krefjandi“. 16