Reynd Ásthildur lét af störfum í vor sem sveitarstjóri í Vesturbyggð. Hún segir margvíslegar áskoranir bíða sín.
Reynd Ásthildur lét af störfum í vor sem sveitarstjóri í Vesturbyggð. Hún segir margvíslegar áskoranir bíða sín. — Morgunblaðið/Kristinn
Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Ásthildur Sturludóttir hefur verið ráðin í starf bæjarstjóra á Akureyri. Tekur hún við af Eiríki Birni Björgvinssyni, sem hefur gegnt stöðu bæjarstjóra undanfarin átta ár.

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Ásthildur Sturludóttir hefur verið ráðin í starf bæjarstjóra á Akureyri. Tekur hún við af Eiríki Birni Björgvinssyni, sem hefur gegnt stöðu bæjarstjóra undanfarin átta ár. Alls sóttu 18 um starfið og þar af drógu tveir umsóknir sínar til baka. Ákvað meirihluti bæjarstjórnar á Akureyri að ganga til samninga við Ásthildi eftir úrvinnslu umsókna.

Ásthildur gerir ráð fyrir að taka við starfinu í september og munu þau fjölskyldan flytjast búferlum í haust. „Við erum öll mjög spennt fyrir komandi flutningum. Við höfum alltaf verið skotin í Akureyri og þegar staðan kom upp fannst okkur þetta tilvalið. Sonur okkar er á leið í menntaskóla svo ég sá að þetta gæti hentað okkur vel.“

Gjörólík sveitarfélög

Ásthildur var bæjarstjóri í Vesturbyggð á tímabilinu 2010-2018 og hefur því góða reynslu af sveitarstjórnarmálum. Spurð hvort líkindi séu milli þessara tveggja sveitarfélaga segir Ásthildur sveitarfélögin verulega ólík, þó að starfið sé í grunninn hið sama.

„Þó er svipað alls staðar að stýra sveitarfélagi, held ég. Þetta eru ólík samfélög og sér í lagi stærð þeirra. Starfið er þó líklegast ekki svo ólíkt. Bæjarstjórinn framfylgir ákvörðunum meirihlutans hverju sinni sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. En þessi tvö samfélög eru alveg gjörólík, ef það væri ekki nema bara fyrir veðrið,“ segir Ásthildur og hlær.

Hún segir margvíslegar áskoranir bíða sín í starfinu fyrir norðan.

„Það eru fjölmargar áskoranir sem fylgja því að stýra stóru sveitarfélagi sem er leiðandi á svæðinu og margt sem þarf að vinna að. T.d. mál flugvallarins, raforkumál, samskipti ríkis og sveitarfélaga, til að nefna einhver. Svo ekki sé minnst á fjölmörg verkefni innan sveitarfélagsins sjálfs,“ segir Ásthildur, sem hlakkar til að hefja störf á nýjum slóðum í haust.