Austurvöllur Ýmsir hafa fengið útrás fyrir listsköpun sína á styttu Jóns.
Austurvöllur Ýmsir hafa fengið útrás fyrir listsköpun sína á styttu Jóns. — Morgunblaðið/Valli
Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Mál er varða umsjón með styttum í eigu ríkisins hafa verið í ólestri, að sögn starfsmanns menningarráðuneytisins. Í sumar hefur víða borið á kroti á styttum bæjarins, þ. á m.

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Mál er varða umsjón með styttum í eigu ríkisins hafa verið í ólestri, að sögn starfsmanns menningarráðuneytisins. Í sumar hefur víða borið á kroti á styttum bæjarins, þ. á m. styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli og styttu Ingólfs Arnarsonar við stjórnarráðið.

Listasafn Reykjavíkur fer með eftirlit og viðhald meirihluta listaverka og styttna í Reykjavík. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá LR, segir að stytturnar á Austurvelli og við stjórnarráðið séu í eigu ríkisins og því sé viðhald og þrif á þeim í verkahring ríkisins. „Við höfum tekið eftir kroti og þess háttar á þessum styttum þegar við sinnum eftirliti á verkum sem eru í okkar umsjá. Við höfum t.a.m. boðið fram krafta okkar þegar kemur að eftirliti með styttum í eigu ríkisins en það er enn til umræðu hjá ríkinu.“

Kristrún Heiða Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi mennta- og menningarráðuneytisins, segir ekki ljóst á hverra borði viðhald og hreinsun á þessum styttum ríkisins sé, en telur það ólíðandi að ekkert sé að gert.

„Sem stendur er ekki skýrt hvar ábyrgð á styttunum í eigu stjórnarráðsins hvílir. Við bíðum þess að úrskurðað verði um það og þau mál komist í skýrari farveg. En í millitíðinni hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið haft frumkvæði að því að styttan af Jóni Sigurðssyni verði hreinsuð.“

Kristrún Heiða segir jafnframt að þau í ráðuneytinu reyni að bregðast hratt við ef ábendingar um krot eða skemmdarverk berist.