[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forystumenn í verkalýðshreyfingunni fara mikinn þessa dagana og hóta hörku í kjaradeilum, jafnvel strax í byrjun næsta árs.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni fara mikinn þessa dagana og hóta hörku í kjaradeilum, jafnvel strax í byrjun næsta árs. Og frá forystu verkalýðshreyfingarinnar heyrist talað um „barlóm“ um erfiða stöðu fyrirtækja, sem sé „taktík“ sem notuð sé til að slá á væntingar fólks.

Þeir sem leiða verkalýðshreyfingu hljóta að tala gegn betri vitund þegar þeir láta svona út úr sér. Það verður að minnsta kosti að vona að svo sé, því að ef þeir vita ekki betur er vissulega vá fyrir dyrum.

Björn Bjarnason setur þessi stóryrði í samhengi sem vonandi skýrir málflutninginn og gefur þá um leið von um vitrænni umræðu í vetur.

Björn segir að barátta forystumanna launþegahreyfingarinnar snúist ekki um að sanna að vel hafi til tekist heldur um meting milli launþegahópa. „Þarna er ekki um raunverulega baráttu fyrir bættum kjörum að ræða heldur valdabaráttu sem nær hámarki á 43. þingi ASÍ sem haldið verður 24. til 26. október 2018,“ segir hann.

Slæmt er að verkalýðshreyfingin sé í því ástandi að það ógni starfsfriði í landinu. Mikill árangur í að bæta kjör landsmanna á liðnum árum hefur ekki náðst vegna verkfalla og áframhaldandi bati næst ekki með hótunum um verkföll.

Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur skyldur við launamenn og þarf að setja þá en ekki eigin valdabaráttu í fyrsta sæti.