[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Símon Eðvald Traustason fæddist í Vestmannaeyjum 1.8. 1948 og ólst þar upp til sextán ára aldurs.

Símon Eðvald Traustason fæddist í Vestmannaeyjum 1.8. 1948 og ólst þar upp til sextán ára aldurs. Hann lauk Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1964, stundaði nám við Iðnskólann í Vestmannaeyjum og lærði þar húsasmíði og lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal vorið 1967. Þá lauk hann einkaflugmannsprófi 1982.

Símon vann við tamningar hjá H.J. Hólmjárn á Vatnsleysu í Skagafirði sumarið 1967 og síðar á jarðýtum hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga fyrstu búskaparárin.

Símon hóf búskap að Egg í Hegranesi vorið 1969. Síðar festi hann kaup á jörðinni Ketu í Hegranesi 1974 og hefur stundað búskap þar síðan.

Símon sat í sveitarstjórn Rípurhrepps 1978-98 að einu kjörtímabili undanskildu og var oddviti hreppsins 1994-98, þar til hreppurinn sameinaðist Sveitarfélaginu Skagafirði. Hann hefur setið í stjórn Búnaðarfélags Rípurhrepps frá 1979 og verið formaður þess frá 1989, var formaður Náttúruverndarnefndar Skagafjarðar um árabil og sat í fjölda nefnda á vegum sveitar sinnar. Hann sat í samlagsráði Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga um árabil, þar til hann hætti mjólkurframleiðslu árið 2013.

Fjölskylda

Símon kvæntist 27.7.1968 Ingibjörgu Jóhönnu Jóhannesdóttur, f. 12.5.1947, húsfreyju. Þau héldu upp á 50 ára brúðkaupsafmæli (gullbrúðkaup) sitt um síðastliðna helgi með börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabarni. Ingibjörg Jóhanna (Systa) er dóttir hjónanna Jóhannesar Ingimars Hannessonar, f. 21.8. 1913, d. 30.3. 2007, bónda að Egg í Hegranesi, og k.h., Jónínu Sigurðardóttur, f. 30.4. 1914, d. 31.3. 2010, húsfreyju.

Börn Símonar og Ingibjargar eru Jónína Hrönn Símonardóttir, f. 10.1.1969, kennari á Þingeyri við Dýrafjörð, gift Sigurjóni Hákoni Kristjánssyni, búfræðingi og sjómanni, og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn; Jóhannes Hreiðar Símonarson, f. 24.8. 1973, útibússtjóri Arion banka á Hellu, kvæntur Helgu Sigurðardóttur bókara og eiga þau þrjú börn; Ragnheiður Hlín Símonardóttir, f. 6.8. 1979, bóndi að Kálfafelli í Fljótshverfi en maður hennar er Björn Helgi Snorrason, húsasmíðameistari og bóndi, og á hún fimm börn og þrjú stjúpbörn; Gígja Hrund Símonardóttir, f. 7.12. 1984, þjónustustjóri Farskólans, símenntunarmiðstöðvar á Sauðárkróki, en maður hennar er Helgi Svanur Einarsson skrúðgarðyrkjufræðingur og eiga þau fjögur börn.

Systkini Símonar eru Halldóra Traustadóttir, f. 28.6. 1939, ljósmóðir í Reykjavík; Guðjón Traustason, vélvirki í Kópavogi; Kornelíus Traustason, f. 30.5. 1946, húsasmíðameistari í Reykjavík; Sólveig Rósa Benedikta Traustadóttir Wiium, f. 12.7. 1950, d. 5.3. 2011, sjúkraliði í Reykjavík; Vörður Leví Traustason, f. 21.10. 1952, bifvélavirki og framkvæmdastjóri Samhjálpar, búsettur í Mosfellsbæ; Guðrún Ingveldur Traustadóttir, f. 5.3. 1954, sjúkraliði, búsett í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Símonar voru Trausti Guðjónsson, f. 13.8. 1915, d. 2.12. 2008, húsasmíðameistari í Kópavogi, og Ragnheiður Jónsdóttir, f. 12.10. 1917, d. 3.3.2011, saumakona og húsfreyja. Þau héldu lengi heimili í Hjarðarholti í Vestmannaeyjum og síðar að Ásbraut 13 í Kópavogi.

Afmælisbarnið verður að heiman á afmælisdaginn.