Votviðri Regnhlífum brugðið á loft.
Votviðri Regnhlífum brugðið á loft. — Morgunblaðið/Eggert
Veðurlag í nýliðnum júlí hefur í heildina verið svipað og mánuðina tvo á undan. Sólarlítið og fremur svalt á landinu sunnan- og vestanverðu, en meira um bjartviðri og hlýja daga austanlands.

Veðurlag í nýliðnum júlí hefur í heildina verið svipað og mánuðina tvo á undan. Sólarlítið og fremur svalt á landinu sunnan- og vestanverðu, en meira um bjartviðri og hlýja daga austanlands. Munur á milli landshluta er þó ívið minni en í fyrri mánuðunum tveimur. Þetta kemur fram í bráðabirgðauppgjöri Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Við Faxaflóa er mánuðurinn sá næstkaldasti á öldinni, ómarktækt kaldara var í júlí 2002. Aftur á móti er hann sá hlýjasti á öldinni á Austfjörðum – nærri miðju á Norðurlandi eystra og á Suðausturlandi.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á fjöllum eystra, jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest á Gagnheiði og Fjarðarheiði, +1,5 stig. Neikvæð vik eru mest á Hraunsmúla í Staðarsveit og á Botnsheiði, -1,8 stig miðað við síðustu tíu ár.

Á landsvísu reiknast meðalhiti í byggð 10,1 stig (endar e.t.v. í 10,2). Mun kaldara var í júlí 2015 og júlímánuðir áranna 2001 og 2002 voru einnig kaldari en nú.

Úrkoma er ofan meðallags um nær allt land – virðist þó vera neðan meðallags á Austfjörðum. Sólarleysi hefur haldið áfram að hrjá íbúa Suður- og Vesturlands. Sólskinsstundir í Reykjavík eru meðal þeirra fæstu í júlímánuði. Þó verður ekki um met að ræða, segir Trausti. sisi@mbl.is