Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Blaklandslið Íslands í karlaflokki og kvennaflokki eiga fyrir höndum átta leiki í þessum mánuði í undankeppni Evrópumótanna.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Blaklandslið Íslands í karlaflokki og kvennaflokki eiga fyrir höndum átta leiki í þessum mánuði í undankeppni Evrópumótanna. Breytingar hafa verið gerðar á bæði lokakeppni og undankeppni mótanna en hjá báðum kynjum komast 24 lið í lokakeppnina í stað 16 áður, og þá verður hvor lokakeppni fyrir sig haldin í fjórum löndum.

Ísland leikur fyrir vikið í fyrsta skipti í undankeppni þar sem spilað er í riðlum heima og heiman, með svipuðu sniði og tíðkast hefur í t.d. fótbolta, handbolta og körfubolta.

Kvennalið Íslands er í A-riðli ásamt Belgíu, Ísrael og Slóveníu og leikur fjóra leiki núna í ágúst en tvo síðustu leikina í janúar 2019.

Heimaleikirnir í Digranesi

Kvennaliðið leikur fyrst í Belgíu 15. ágúst, síðan gegn Slóveníu í Digranesi í Kópavogi 19. ágúst, þá gegn Ísrael á útivelli 22. ágúst og í Digranesi gegn Ísrael 26. ágúst. Útileikurinn við Slóveníu og heimaleikurinn við Belgíu fara síðan fram í janúar.

Karlaliðið leikur á sömu dögum og er í riðli með Slóvakíu, Moldóvu og Svartfjallalandi. Ísland byrjar gegn Slóvakíu á útivelli 15. ágúst, mætir Moldóvu í Digranesi 19. ágúst, og leikur síðan við Svartfjallaland úti 22. ágúst og í Digranesi 26. ágúst. Útileikurinn við Moldóvu og heimaleikurinn við Slóvakíu fara síðan fram í janúar.

Sigurlið riðlanna komast í lokakeppni EM 2019 og þangað fara líka fimm af þeim sjö liðum sem ná bestum árangri í öðru sæti. Tólf þjóðir hjá hvoru kyni hafa þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni, vegna árangurs og sem gestgjafar.

Lokakeppni EM í karlaflokki fer fram í Belgíu, Frakklandi, Hollandi og Slóveníu 13.-29. september 2019 en lokakeppnin í kvennaflokki fer fram í Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tyrklandi. Dagsetningar þar liggja ekki fyrir.