[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Knattspyrnumaðurinn Oliver Sigurjónsson mun ljúka tímabilinu með Breiðabliki en lánssamningur hans við Bodø/Glimt í Noregi hefur verið framlengdur.

*Knattspyrnumaðurinn Oliver Sigurjónsson mun ljúka tímabilinu með Breiðabliki en lánssamningur hans við Bodø/Glimt í Noregi hefur verið framlengdur. Oliver kom aftur til Breiðabliks í vor og hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu sem er í toppbaráttu Pepsi-deildar karla.

*Hollenskur knattspyrnumaður, Vincent Weijl , hefur samið við Skagamenn og leikur með þeim í 1. deild karla út þetta tímabil. Hann er 27 ára miðjumaður og lék með unglinga- og varaliði þar árin 2008 og 2009 en hefur síðan víða komið við. Síðast lék hann með Samtredia í Georgíu. Weijl lék með yngri landsliðum Hollands á sínum tíma.

* Knattspyrnumaðurinn Jóhann Helgi Hannesson skrifaði í gær undir samning við uppeldisfélag sitt Þór og mun hann leika með liðinu út tímabilið í 1. deildinni. Jóhann gekk til liðs við Grindavík fyrir síðustu leiktíð frá Þór og kom hann við sögu í 12 leikjum með liðinu í Pepsi-deildinni en þar áður hafði hann leikið allan sinn feril með Þór. Hann skoraði sex mörk í 20. leikjum í 1. deildinni í fyrra með Þórsurum.

* Zeiko Lewis er genginn til liðs við HK á láni og mun hann leika með liðinu í Inkasso-deild karla í knattspyrnu, út leiktíðina. Hann kemur til félagsins frá FH en hann hefur komið við sögu í sjö leikjum með Hafnarfjarðarfélaginu í sumar í bæði deild og bikar. Lewis er landsliðsmaður frá Bermúda en hann samdi við FH í mars á þessu ári.

* Framherjinn Kristján Flóki Finnbogason er á leiðinni til sænska knattspyrnufélagsins Brommapojkarna en það eru sænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Kristján er samningsbundinn Start í Noregi en hann verður lánaður til sænska félagsins. Kristján hefur skorað tvö mörk í norsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Start.