Horft af Arnarhóli Áformað er að afhenda fyrstu íbúðirnar á Hafnartorgi fyrir áramót. Við hlið Hafnartorgs má sjá drög að nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Harpan er svo lengst til hægri.
Horft af Arnarhóli Áformað er að afhenda fyrstu íbúðirnar á Hafnartorgi fyrir áramót. Við hlið Hafnartorgs má sjá drög að nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Harpan er svo lengst til hægri. — Teikning/ÞG Verk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Mikil eftirspurn eftir nýju atvinnuhúsnæði vitnar um uppsafnaðan skort. Framboðið er enda takmarkað.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Mikil eftirspurn eftir nýju atvinnuhúsnæði vitnar um uppsafnaðan skort. Framboðið er enda takmarkað.

Þetta segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, en fyrirtæki hans er nú með tugi þúsunda fermetra af slíku húsnæði í smíðum á höfuðborgarsvæðinu.

Stærsta eignin er í Urðarhvarfi í Kópavogi. Þar er ÞG Verk að ljúka við byggingu á 16.500 fermetra skrifstofuhúsnæði. Um 10.000 fermetra bílastæðahús fylgir skrifstofuhúsinu sem verður með þeim stærri á landinu. ÞG Verk hóf smíði hússins árið 2006 en gerði hlé á framkvæmdum 2008. Íslandsbanki eignaðist húsið í skuldauppgjöri 2011 og eignaðist verktakafyrirtækið Þingvangur svo húsið. ÞG Verk keypti bygginguna aftur í vor og hyggst afhenda fyrstu leigutökum rými þar næsta vor.

Að auki er ÞG Verk að byggja 10.000 fermetra af atvinnuhúsnæði við Dalveg í Kópavogi sem er ætlað millistórum fyrirtækjum. Þar verður m.a. gott lagerrými.

Umfangsmesta verkefni ÞG Verks er á Hafnartorgi í Reykjavík. Þar verða um 6.400 fermetrar af skrifstofurými og 8.000 fermetrar af þjónustu- og verslunarrými. Við það bætast 69 íbúðir og bílakjallari.

Með alls 41 þúsund fermetra

Samanlagt er ÞG Verk því með um 41 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði í smíðum á höfuðborgarsvæðinu sem kemur til afhendingar á næstu 12 mánuðum. Til samanburðar má nefna að Kringlan er um 60 þús. fermetrar.

Við það bætist 10 þúsund fermetra bílakjallari í Urðarhvarfi og 10 þús. fermetra kjallari á Hafnartorgi.

Að sögn Þorvaldar er búið að leigja 50-60% af atvinnuhúsnæðinu á Hafnartorgi. Það fyrsta verði tekið í notkun í haust. Þá hafi borist margar fyrirspurnir um húsnæðið á Dalvegi.

Þessi árangur hafi náðst þrátt fyrir að húsnæðið hafi ekki verið auglýst.

Hann segir aðspurður að lúkningin á byggingunni í Urðarhvarfi vitni um efnahagslega endurreisn síðustu ára. Húsið hafi staðið autt í um áratug eftir efnahagshrunið. Vöxtur hagkerfisins kalli nú á meira rými fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Auða húsnæðið að fyllast

„Það hefur skapast ákveðin vöntun, enda nánast ekkert verið byggt af atvinnuhúsnæði öll þessi ár frá hruni. Fyrstu árin var lítil sem engin eftirspurn eftir atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Þegar efnahagslífið fór af stað fóru fyrstu árin í að fylla atvinnuhúsnæði sem var til staðar. Sama gildir um íbúðarhúsnæði. Upp úr 2014 fóru íbúðabyggingar að taka við sér aftur. Það hefur ekki verið sama þörf á atvinnuhúsnæði fram að þessu. Við greinum hins vegar að það hefur skapast þörf á nýbyggingum. Það er skortur á atvinnuhúsnæði almennt, bæði skrifstofum og iðnaðarhúsnæði. Valmöguleikar á leigu- eða kaupmarkaði í atvinnuhúsnæði eru orðnir ansi takmarkaðir,“ segir Þorvaldur.

Hentar stórfyrirtækjum

Hann segir bygginguna í Urðarhvarfi vera meðal fárra á höfuðborgarsvæðinu sem henta stórfyrirtækjum, eða stofnunum, sem þurfa mörg þúsund fermetra. Áætlað sé að um þúsund manns muni starfa í húsinu. Það verði því mikil lyftistöng fyrir Hvörfin. Kópavogsbær hafi sýnt áhuga á verkefninu og liðkað fyrir því.

Um 56% af flatarmáli byggingarinnar verða tekin í notkun næsta vor og hinn hlutinn svo í áföngum.

Þorvaldur segir að ólíkt fyrri þensluskeiðum hafi hið opinbera haldið að sér höndum með verklegar framkvæmdir síðustu ár. Nú séu þó vonandi framundan mörg stórverkefni hjá hinu opinbera, á borð við byggingu nýs Landspítala, uppbyggingu umferðarmannvirkja o.fl. Þá segir Þorvaldur farið að hægja á uppbyggingu hótela. Þá séu vísbendingar um að miklar hækkanir á verði íbúðarhúsnæðis séu að baki.

Býst við stöðugleika

„Það er jöfn og góð sala í íbúðarhúsnæði sem er á lægra verðbilinu og hentar til dæmis fjölskyldufólki. Það má búast við að íbúðamarkaðurinn verði tiltölulega stöðugur næstu misserin. Mörg íbúðaverkefni eru á framkvæmdastigi eða eru að fara af stað. Ég tel að það muni ganga ágætlega að fylla upp í umtalaðan skort á íbúðum. Ég á von á að hækkanir verði lítið umfram verðlagshækkanir.“

Þorvaldur segir kostnað við byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist síðustu ár. Nýjar kröfur, aukið flækjustig, lóðarkostnaður og leyfisgjöld eigi meðal annars þátt í því. Fátt bendi til að brugðist hafi verið við gagnrýni á þessa þróun.

„Ég fæ ekki séð að það sé verið að bregðast við því. Hvorki í gjaldtöku né í skipulagsskilmálum sem hafa töluvert um það að segja hver byggingarkostnaður er. Það eru sífellt að koma inn nýjar og hamlandi kröfur um ýmis atriði í íbúðabyggingum sem auka kostnað. Þá er ferlið við að fá verkefni samþykkt hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum sífellt að lengjast og verða flóknara. Það eru til dæmis kröfur sem lúta að atriðum eins og blágrænum ofanvatnslausnum, sem eru orðnar algengar í nýjum hverfum. Það þýðir að meðhöndla skuli ofanvatn og veita því á náttúrulegan hátt niður í jarðveg, innan lóðar, án þess að veita því í fráveitukerfi borgarinnar,“ segir Þorvaldur og nefnir fleiri dæmi um kröfur sem auka kostnað við byggingu íbúða.

Dýrar kröfur hækka íbúðaverð

„Það eru ýmsar takmarkanir á hönnun og formi húsa, takmarkanir á stigahúsum, þ.e.a.s. lausnum fyrir svalaganga, kröfur um verslunar- og þjónusturými á jarðhæð íbúðarhúsa hér og þar og kvaðir um leiguíbúðir. Þá má nefna kröfu um djúpgáma í sorphirðu sem er gríðarlega dýr lausn. Svona mætti lengja telja,“ segir Þorvaldur. Hann segir djúpgáma kosta 300-400 þúsund á íbúð í íbúðarhúsnæði sem félagið er að byggja í Vogabyggð í Reykjavík. Þá kosti krafa um bílastæði í kjallara um 4,5 milljónir á stæði, samanborið við stæði ofanjarðar sem kosti um 250 þúsund. Niðurstaðan sé sú að húsnæði sem ÞG Verk er að byggja í Vogabyggð kostar u.þ.b. 30% meira í byggingu en íbúðarhúsnæði, sem nú er í byggingu og til sölu, við Álalæk á Selfossi.