Fjögur herbergi eru lokuð tímabundið á Hótel Hellu eftir að eldur kom þar upp í fyrrakvöld. Full starfsemi er komin í gang þar en hótelið er uppbókað út október.

Fjögur herbergi eru lokuð tímabundið á Hótel Hellu eftir að eldur kom þar upp í fyrrakvöld. Full starfsemi er komin í gang þar en hótelið er uppbókað út október.

Hótelstjóri Hótels Hellu slökkti eldinn, sem kom upp á salerni í einu hótelherbergjanna, með slökkvitæki eftir að brunaviðvörunarkerfi hótelsins hafði farið í gang. Skömmu síðar voru slökkviliðsmenn frá brunavörnum Rangárvallasýslu mættir á vettvang.

Að sögn Leifs Bjarka Björnssonar slökkviliðsstjóra bendir allt til þess að eldsupptök hafi verið í loftræstiviftu á salerni. Hótelgestir voru í herberginu, sem er á fyrstu hæð, þegar eldurinn kom upp.

Rífa þurfti hluta af vegg á salerninu til að komast að glóð sem hafði komist þar inn undir. Einnig þurfti að rífa vegg niður á salerninu í herberginu fyrir ofan en þar höfðu plaströr bráðnað saman og lokast.

Leifur Bjarki sagði í samtali við Mbl.is eldinn ekki hafa verið mikinn en reykurinn hefði aftur á móti verið „gífurlegur“. Vegna þess að útsogið var í plaströrum var reykurinn meiri en annars ætti að vera.

Hótelið var rýmt um leið og eldurinn kom upp og fékk slökkviliðið afnot af íþróttahúsi bæjarins sem er aðeins um 300 metra frá hótelinu.

„Veðrið var það gott að fólk var að miklum hluta bara úti. Það var 15 stiga hiti um nóttina og blankalogn. Aðstæður gátu ekki verið betri hvað það varðar,“ segir Leifur Bjarki.