Gott að hreyfing er komin á áform um skattalækkanir

Breyttar mælingar á mengun bifreiða hafa valdið nokkrum titringi meðal þeirra, sem selja bíla hér á landi, vegna útlits fyrir að breytingin muni leiða til rækilegrar hækkunar á gjöldum og þar með verði á nýjum bílum. Í Morgunblaðinu í gær tekur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, af skarið og segir að það sé ekki markmið hinna breyttu mælinga að auka tekjur ríkissjóðs.

„Ég hef haft áhyggjur af þessu máli og er með það til greiningar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu,“ segir Bjarni. „Þeirri vinnu er ekki alveg lokið. En ég útiloka ekki að við bregðumst við vegna þessara ábendinga.“

Með hinum nýju mælingum er ætlunin að komast nær því hvað bílar valda í raun mikilli mengun þegar komið er á götuna, en við þær kjöraðstæður, sem hingað til hefur verið mælt við. Það hefur lengi blasað við neytendum að yfirleitt fer ekki saman uppgefin notkun bíla á eldsneyti og raunnotkun og full ástæða til að færa slíkar mælingar til betri vegar. Það er hins vegar ástæðulaust að slíkar breytingar bitni á neytendum, sérstaklega í ljósi þess að nú þegar eru mishá bifreiðagjöld notuð til að stýra neytendum og ýta undir kaup á vistvænum bílum.

Það er því ánægjulegt að Bjarni ætlar að taka þetta mál til skoðunar með það að leiðarljósi að það sé ekki markmið breyttra mælinga á mengun bifreiða að auka tekjur ríkissjóðs.

Bjarni fjallar einnig um það í samtalinu við Morgunblaðið í gær að hann sjái fyrir sér að tryggingagjaldið verði lækkað í skrefum strax um næstu áramót og svo aftur ári síðar.

Tryggingagjaldið var hækkað þegar bankakerfið fór á hliðina vegna þess ástands, sem þá skapaðist á vinnumarkaði. Gjaldið fór upp í 8,65%, en hefur smám saman verið lækkað síðan og er nú komið niður í 6,85%. Þótt allar forsendur hækkunar tryggingagjaldsins séu horfnar, vinnumarkaðurinn sé öflugur og atvinnuleysi hverfandi, hefur gjaldið ekki verið fært til þess horfs sem var 2008. Þá var það 5,34%.

Áform um að lækka tryggingagjaldið skipta verulega miklu máli fyrir atvinnurekendur, sérstaklega smærri fyrirtækja.

Í viðtalinu nefnir Bjarni einnig lækkun neðra skattþrepsins og vísar þar til stjórnarsáttmálans. Segir hann að það muni gerast í áföngum í samspili skattþrepa og bótakerfanna. Það er gott að hreyfing er komin á þessi mál. Reyndar er ástæða til að fara rækilega ofan í saumana á skattheimtu í landinu og má þá hafa að leiðarljósi kjörorð arkitekta, sem hampa einfaldleikanum, þess efnis að oft er minna meira.