Aðalheiður Karlsdóttir, Lóa , fæddist á Fossi í Vestur-Hópi 23. mars 1937. Hún lést á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 25. júlí.

Foreldrar Aðalheiðar voru Karl Georg Guðfinnsson, f. 17. maí 1904, d. 4. mars 1990, og Steinunn Emilía Þorsteinsdóttir, f. 14. nóvember 1906, d. 24. júlí 1976. Þau skildu. Þau eignuðust fimm börn og var Aðalheiður næst yngst þeirra. Systkini hennar eru Garðar, f. 28. nóvember 1928, Jóhann Þorsteinn, f. 17. maí 1930, d. 21. mars 2002, Margrét, f. 28. júlí 1931, og Guðfinna Hólmfríður, f. 1. desember 1945. Karl Georg kvæntist síðar Anítu, f. 26. nóvember 1929, d. 3. desember 2011. Fyrir átti hún dótturina Rosemarie, f. 31. júlí 1951, og gekk Karl henni í föðurstað.

Aðalheiður giftist 27. desember 1958 Magnúsi Inga Gíslasyni fangaverði, frá Bjargi, Stokkseyri, f. 7. apríl 1934, d. 11. ágúst 1997. Dóttir þeirra er Erna Magnúsdóttir, f. 31. janúar 1961. Eiginmaður hennar er Steindór Kári Reynisson, f. 26. ágúst 1957. Dætur þeirra eru 1) Aðalheiður Millý Steindórsdóttir, f. 29. mars 1978, gift Kristjáni Guðnasyni, f. 14. nóvember 1981. Þau eiga saman tvö börn, Emelíu Ósk og Kristján Orra. 2) Elín Gíslína, f. 4. ágúst 1981, hún á tvö börn, Hafdísi Ernu og Viktor Kára. Barnsfaðir hennar er Hafsteinn Róbertsson, f. 8. nóvember 1974. Þau slitu samvistir.

Aðalheiður stundaði nám í Farskóla í Vestur-Hópi og síðar í Hraungerðishreppi. Hún flutti til Þorlákshafnar 1952 og bjó þar hjá Garðari bróður sínum. Árið 1955 flytur hún með Magnúsi Inga að Bjargi á Stokkseyri. Árið 1973 flytja þau svo í Birkihlíð á Stokkseyri, en voru ætíð kennd við Bjarg. Aðalheiður starfaði m.a. við vegavinnu, í fiskvinnslu og sem húsmóðir og bóndi á Stokkseyri, þar sem þau hjónin voru með hesta og kindur. Hún hafði mikinn áhuga á hestamennskunni sem og hannyrðum, leiklist og félagsstörfum. Aðalheiður bjó í Birkihlíð til ársins 2000, þá flytur hún í Grænumörk 1 á Selfossi. Hún flutti svo á Ás í Hveragerði í byrjun sumars 2018.

Útför Aðalheiðar fer fram frá Stokkseyrarkirkju í dag, miðvikudaginn 1. ágúst 2018, kl. 14.

Elsku mamma. Það eru margar góðar minningar sem við fjölskyldan erum búin að rifja upp síðustu daga. Það eru margar minningar í kringum hestana, ég var ekki há í loftinu þegar ég fór í útreiðartúr með mömmu og pabba. Mamma hafði einstakt lag á hestum, hún gat labbað að hestunum þegar aðrir þurftu að hlaupa og króa þá af úti í horni og beisla. Við fórum oft ríðandi á Murneyrarmót og svo var farið ríðandi norður á Vindheimamela 1973 og það var góð ferð. Það var ekki bara verið með hross, það voru einnig kindur og hundar.

Mamma var lagin í höndunum, hún prjónaði margar peysur og saumaði á mig jólaföt. Hún vann í frystihúsinu á Stokkseyri og það var oft unnið langt fram á kvöld á vertíðum, loðnu og síld.

Mamma var mjög léttlynd og hafði góðan húmor. Þegar það var verið að segja henni frá einhverju sagði hún oft „Bölvuð vitleysa, nei, nei, það er ekkert svoleiðis“ með sérstökum tón og brosti. Hún átti mjög gott með að umgangast fólk, það einhvern veginn sogaðist að henni. Þegar veikindin voru erfið var húmorinn alltaf til staðar. Þegar hún flutti á Selfoss í Grænumörk 1 var oft setið frammi í setustofu og þá kom mamma oft með rjómapönnukökur á sunnudögum eða hátíðisdögum. Það komu allir saman með eitthvert smá góðgæti með sér.

Hjartans þakkir vil ég færa starfsfólkinu á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði fyrir hlýja og góða umönnun og kærleik á þeim stutta tíma sem mamma dvaldi þar.

Elsku mamma. Það er komið að kveðjustund. Margar fallegar minningar hafa farið um huga minn, nú ertu komin í draumalandið til pabba. Hvíldu í friði, elsku mamma. Ég sakna þín

Þín dóttir,

Erna.

Elsku amma Lóa hefur kvatt okkur. Margar minningar streyma fram í hugann, allt frá því ég var lítil í heimsókn hjá ömmu og afa á Stokkseyri, þar sem margt og mikið var brallað og allt til síðustu daga, þar sem ég átti ómetanlegar stundir með henni á Ási í Hveragerði, þar sem hún dvaldi síðustu vikurnar. Allar þessar minningar eru svo dýrmætar. Þær ylja mér um hjartarætur og ná að kalla fram smá bros í gegnum öll tárin sem hafa fallið síðustu daga. Mér eru mjög minnisstæðar stundirnar á Stokkseyri þegar ég var lítil. Þar eyddum við fjölskyldan mörgum stundum og brölluðum ýmislegt með ömmu og afa. Við skruppum m.a. á hestbak, fórum upp á mýri að huga að hestunum og tókum þátt í heyskap á sumrin, að ógleymdum hundunum og köttunum sem var alltaf gaman að leika við.

Mér finnst engin orð duga til að lýsa því hversu einstök amma var. En ég ætla samt að reyna að finna nokkur orð. Amma var dásemd. Hún var mjög félagslynd, vildi allt fyrir alla gera og var umhugað að öllum liði vel. Hún hafði einstakan húmor og það var nánast sama hvað á dundi, húmorinn hafði hún samt. Þær voru ófáar þrautirnar sem amma tókst á við en alltaf stóð hún þær af sér. Það að kvarta var ekki til í hennar orðabók. Ég sagði við hana fyrir stuttu að mér fyndist hún vera hörkutól. Hún var nú ekkert að taka undir það hjá mér, enda var hún hógvær kona. Amma var líka flink í höndunum og eru þær flíkur sem ég og börnin mín eigum, sem hún prjónaði, enn dýrmætari nú en áður. Amma gerði líka bestu rjómaterturnar og einstaklega góða rúgbrauðstertu. Þegar í ljós kom að ég hafði óþol þá hafði hún áhyggjur af því hvað ég gæti borðað. Ég sagði henni að vera ekkert að stressa sig á því, ég gæti alveg sleppt kökunum. Ekki leið á löngu þar til hún var búin að finna lausn svo ég gæti borðað rúgbrauðstertuna hennar. Hún fann leið til að búa til aðra sem ég gæti borðað og var hún eins á bragðið og upprunalega kakan. Hún bara reddaði málunum. Minningarnar eru svo margar og góðar en erfitt að koma þeim á blað. Ég geymi þær í hjarta mínu.

Mig langar að þakka starfsfólkinu á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði fyrir einstaklega hlýja og góða umönnun og kærleik á þeim stutta tíma sem amma dvaldi þar.

Það er komið að kveðjustund. Hvíldu í friði, elsku amma, og takk fyrir allt. Ég sakna þín.

Þín

Elín Gíslína (Ella).

Elsku amma. Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin.

Söknuðurinn er svo sár.

Við áttum svo sérstakt samband, þú og ég. Þú varst svo miklu meira en bara amma. Þú varst líka ein besta vinkona mín og var alltaf hægt að leita til þín ef eitthvað bjátaði á. Það er svo erfitt að geta ekki tekið upp símtólið og hringt í þig og spjallað heilu klukkutímana eins og við gerðum oft, og hlegið saman.

Alla mína barnæsku var það skemmtilegasta sem ég gerði að fara til þín og afa í Birkihlíðina. Að stússast í hesthúsinu með ykkur og fara í heyskap var toppurinn. Að fá að leika sér í hlöðunni í feluleik, allar ferðirnar upp á mýri, veiðiferðirnar, dundast með þér í fallega garðinum ykkar og fara á hestbak, að ógleymdum hundunum og kisunum sem þið áttuð og við systur héldum svo mikið upp á. Allt þetta hefur gefið mér svo ótrúlega margt.

Mér fannst þú alltaf svo mikið hörkutól. Þú gast allt! Þú varst fyrirmynd mín.

Ég man hvað mér fannst þú sterk. Vippaðir þungu heyböggunum léttilega upp á kerru í heyskapnum, svo var ekkert mál fyrir þig að hafa stjórn á ótemjum. Þú hafðir alveg einstakt lag á hestum, enda mikil hestamanneskja.

Þú hugsaðir fyrst og fremst um hag þinna nánustu og gerðir allt til að okkur liði vel. Þú varst alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd og varst dugleg að fylgjast með okkur öllum. Þegar langömmubörnin fæddust, sem voru öll litlu sólargeislarnir þínir, varstu ekki lengi að taka fram prjónana og prjóna lopapeysur handa þeim og eru þær til þó nokkrar og munum við varðveita þær vel. Þú varst ótrúlega lagin í höndunum, hvort sem það var við prjónaskap, saumaskap, bakstur eða annað. Þú gekkst í gegnum erfiða hluti á lífsleiðinni. Sáran missi er afi féll frá, og svo mikil veikindi í mörg ár. Alltaf stóðstu upp aftur jafnvel sterkari en áður og kvartaðir aldrei.

Núna síðustu mánuðina fór heilsan þín að versna. Í byrjun júní fluttir þú að dvalarheimilinu Ási í Hveragerði, þar sem yndislegt starfsfólk gaf þér mikla hlýju og umhyggju og er ég því endalaust þakklát fyrir það. Það var sama hversu veik þú varst, þú hélst alltaf í húmorinn. Fallega brosið þitt og hlýjan sem ég fékk alltaf frá þér þegar ég kom til þín er mér svo dýrmæt. Og þegar ég kallaði þig amma dúlla, sem ég gerði svo oft, fórstu alltaf að hlæja, þótt veikindin væru mikil. Ég sat mikið hjá þér síðustu dagana. Hélt í hendurnar þínar og reyndi að gefa þér allan minn styrk og hlýju til að þér liði betur. Um hádegisbil 25. júlí kvaddir þú í faðmi okkar. Þú varst kölluð í Sumarlandið sem við höfðum svo oft rætt um saman. Þar veit ég að hann afi hefur tekið vel á móti þér með góða hlýja faðmlaginu sínu, sameinuð á ný.

Söknuðurinn er sár og mikill en ég reyni að ylja mér við allar yndislegu minningar sem við áttum saman.

Ég er þér svo innilega þakklát fyrir allt og veit að þú munt ávallt vaka yfir okkur, elsku amma mín.

Takk fyrir allt og allt.

Þín

Millý.