HM Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði í tveimur leikjum á HM.
HM Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði í tveimur leikjum á HM. — Morgunblaðið/Eggert
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í knattspyrnu er kominn í sitt fjórða ítalska félag á ferlinum.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Emil Hallfreðsson landsliðsmaður í knattspyrnu er kominn í sitt fjórða ítalska félag á ferlinum. Frosinone, sem er nýliði í ítölsku A-deildinni á komandi tímabili, tilkynnti í gær að samningar hefðu tekist um kaup á honum frá Udinese.

Þar með þarf Emil að flytja suður á bóginn á ný. Hann var syðst á Ítalíu með Reggina frá 2007 til 2010 en var lánaður eitt ár til Barnsley á Englandi. Hann flutti síðan til Norður-Ítalíu og lék með Hellas Verona frá 2010 og til ársloka 2015 en síðan með Udinese frá ársbyrjun 2016. Samtals á Emil að baki sjö tímabil í A-deildinni, hefur leikið þar langlengst íslenskra knattspyrnumanna, og lék auk þess eitt ár með Verona í C-deild og tvö í B-deild áður en liðið komst í hóp þeirra bestu. Alls hefur Emil spilað 274 deildaleiki á Ítalíu, 180 þeirra með Verona, og skorað í þeim 17 mörk. Þar af eru 168 leikir í A-deildinni.

Frosinone er frá samnefndum 46 þúsund manna bæ skammt sunnan við Róm. Liðið lék lengst af í neðri deildunum en komst í A-deildina í fyrsta sinn 2015, var þá eitt tímabil þar og er nú komið þangað á nýjan leik eftir að hafa unnið Palermo í umspili í vor.

Keppnin á Ítalíu hefst laugardaginn 18. ágúst og Frosinone byrjar á útileik gegn Atalanta. Fyrsti heimaleikurinn er viku síðar gegn Bologna og síðan er grannaslagur gegn Lazio í Róm í þriðju umferðinni.

Emil er 34 ára gamall og hefur leikið sem atvinnumaður frá 2005 þegar hann fór til Tottenham frá FH. Hann hefur samtals spilað 351 deildaleik á ferlinum og 66 A-landsleiki.