Facebook glímir við gervinotendur, en vandinn er mun víðtækari og alvarlegri

Facebook sagði frá því í gær að fyrirtækið hefði fjarlægt 32 notendur eða síður af vefjum sínum. Þeir sem settu upp þessar síður munu hafa villt á sér heimildir og ætlað að nota síðurnar til að hafa áhrif á bandarísku kosningarnar í nóvember.

Það er ágætt að Facebook er farið að hafa áhyggjur af umræðum um neikvæð áhrif fyrirtækisins, en óvíst að þessar 32 síður hafi mikið að segja í stóra samhenginu. Og þær breyta því ekki að þeir sem verja of miklum tíma á samfélagsmiðlum en litlum tíma á raunverulegum fjölmiðlum eiga það á hættu að verða af því sem máli skiptir og sjá helst aðeins það sem þeim líkar að heyra. Þröngsýni og jafnvel fordómar er líklegur fylgifiskur og er orðið verulegt áhyggjuefni með vaxandi notkun samfélagsmiðla.

Af þessum sökum er ástæða til að hafa áhyggjur af annarri þróun sem glímt er við í Bandaríkjunum og víðar. Þar hefur það til dæmis gerst að síðastliðinn áratug hefur þeim sem starfa á ritstjórnum fjölmiðla fækkað um fjórðung á um áratug. Á dagblöðum er þetta hlutfall enn hærra.

Þessi þróun, samhliða aukinni notkun samfélagsmiðla, mun að öllum líkindum hafa þau áhrif að smám saman verði fólk verr upplýst um samfélagið. Sumir telja raunar að þess megi þegar sjá stað. Þróun af þessu tagi væri verulegt áhyggjuefni fyrir lýðræðið.