Gras Vegna ákvörðunarinnar er neysla kannabisefna ekki refsiverð.
Gras Vegna ákvörðunarinnar er neysla kannabisefna ekki refsiverð. — AFP
Baráttumenn fyrir lögleiðingu kannabisefna fengu í gær stuðning úr óvæntri átt. Stjórnlagadómstóll Georgíu úrskurðaði að lagalegar refsingar fyrir einkanot á kannabisefnum samræmdust ekki stjórnarskrá landsins.

Baráttumenn fyrir lögleiðingu kannabisefna fengu í gær stuðning úr óvæntri átt. Stjórnlagadómstóll Georgíu úrskurðaði að lagalegar refsingar fyrir einkanot á kannabisefnum samræmdust ekki stjórnarskrá landsins. Frá þessu er sagt í dagblaðinu Georgia Today og á AFP . Röksemdir dómstólsins voru þær að neysla kannabisefna væri ekki ógn við samfélagið heldur einungis við heilsu neytandans og því bæri neytandinn einn ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni að reykja þau. Ræktun og sala kannabisefna er þó enn bönnuð.

Í ákvörðun stjórnlagadómstólsins er gerð undantekning í tilvikum þar sem kannabisneysla ógnar þriðja aðila, til dæmis í skólum og á sumum almenningsstöðum.

Fyrir úrskurðinn var refsing við einkanotum á kannabisefnum í Georgíu sekt upp á andvirði tæpra 21.000 króna.

Georgíski þingmaðurinn og frjálshyggjumaðurinn Zurab Japaridze óskaði georgísku þjóðinni til hamingju með ákvörðunina: „Með þessari ákvörðun er Georgía orðin frjálsara land.“ Akaki Zoidze, þingmaður stjórnarflokksins Georgíska draumsins og formaður heilbrigðisráðs Georgíuþings, var ekki eins hrifinn. Sagði hann lögleiðingu kannabisefna hafa komið of snemma og að meiri tíma hefði átt að verja í undirbúning lagasetningar þess efnis. Zoidze er meðhöfundur draga að nýrri fíkniefnalöggjöf en lögleiðing kannabisreykinga var ekki hluti af henni.