Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Það er hægara sagt en gert að aftra voðaverkum þegar Bakkus á í hlut og sönnur þess upplifum við allt of oft."

Það fer ekki framjá neinum þvílík aukning er orðin í umferðinni á landi hér. Það staðfesta fregnirnar alls staðar að. Því miður er það svo að miklu fleiri slæmar fregnir berast okkur úr umferðinni, allt yfir í banaslysin sem skera í hjarta manns.

Það er samt einkenni í frásögn af þessum slysum að það er þrástagast á ástandi vega og skal svo sem ekki dregið úr því að þar er víða úrbóta þörf, enda er vegakerfið okkar einstaklega viðamikið miðað við mannfjölda og nóg er af fjöllum og hvers kyns öðrum tálmunum sem auðvelda ekki framkvæmdir. Hafandi verið búandi í erfiðu kjördæmi hvað snertir samgöngur og um sextán ára skeið verið ásamt öðrum þingmönnum kjördæmis okkar eystra að mylgra fjármunum um svæðið, alltof litlum að okkur alltaf fannst, þá hættir mér til samanburðar við ástandið fyrir tuttugu árum og nú þar sem hvert þrekvirkið hefir verið unnið til úrbóta.

Það ástand stenst engan samanburð og þó er ótalmargt ógert enn.

En svo ég víki aftur að fregnum umferðarinnar og ástandi veganna er staðreyndin sú, hin beizka staðreynd, að það erum við sjálf, ökumennirnir, sem berum því miður þessa skelfilegu ábyrgð, skelfilegu segi ég, því við erum allt of oft kærulaus og áhættusækin, allt yfir í hreint gáleysi og glannaskap. Og mér þykir vera eins og oft sé haldið hlífiskildi yfir ökumönnunum, slysavöldunum, og byrjað að tala um vegi. Þó eiga þeir sem þannig aka að vita að þeir eru með stórhættulegt drápstæki í höndunum og við akstur þess og alla meðferð þarf mikla gætni, þar dugar ekki að sperrast við að vera svolítið framar þeim næsta á undan, næstum sama hvernig aðstæður eru, þar dugar ekki að vera með hugann víðs fjarri, til dæmis í símanum sem er það algengasta í dag og tjóar lítt að setja strangari löggjöf að manni virðist svo alltof oft, þegar maður heyrir nánar sagt frá orsökum slysanna. Og af hverju fyllsta aðgát? Við eigum að sýna fyllstu tillitssemi við samborgarana, því afleiðingarnar án þessa í umferðinni eru daprar og deginum ljósari. Þetta gildir um þau sem fyrir verða, slasaða, allt yfir í örkumla, alla leið í dauðans örlög að þar er voðinn mestur, en ekki skal fjöður dregin yfir hið gífurlega eignatjón sem af verður, þó það sé sem hjóm eitt hjá öllum þeim fórnarlömbum sem um ræðir. Þar koma auk banaslysanna átakanlegu einnig önnur örlög sem dynja yfir um margt það fólk sem sagt er að sé úr lífshættu, afleiðingarnar geta verið skelfilegar, allt yfir í hin hræðilegustu örkuml, glötun svo ótalmargs, allt yfir í alvarlegar skerðingar allra lífsgæða. Hversu mörg slík verða ekki á ári hverju en fara ekki hátt. Og ekki má ég gleyma orsökinni miklu, þegar fólk er undir áhrifum áfengis eða eiturefna annarra. Þar er voðinn einna fyrirsjáanlegastur, þar er dómgreindin slævð og í raun allt eðli mannsins sveigt í áttina að hættuboðunum.

Það er hægara sagt en gert að aftra voðaverkum þegar Bakkus á í hlut og sönnur þess upplifum við allt of oft.

Það er því að vonum sem við bindindismenn vörum við þessum görótta drykk, ótrúlega margir eiga um sárt að binda eftir að hafa lent í samskiptum við drukkna menn sem hvergi eru hættulegri en bak við stýrið. Tölur segja margt og þær skelfa mig, en þær segja þó aldrei allt.

Munum samt fyrst og síðast hverjir örlagavaldar við getum orðið af svo margþættum ástæðum. Munum að umferðin tekur sinn toll og þess vegna viljum við ekki tollskyldir vera.

Höfundur er formaður fjölmiðlanefndar Bindindissamtakanna IOGT.

Höf.: Helga Seljan