Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest þá ákvörðun velferðarráðuneytisins að synja beiðni blaðamanna Morgunblaðsins um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra sem mat á hæfni umsækjenda um embætti landlæknis.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest þá ákvörðun velferðarráðuneytisins að synja beiðni blaðamanna Morgunblaðsins um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra sem mat á hæfni umsækjenda um embætti landlæknis.

Alma Möller var skipuð í embætti landlæknis í byrjun mars. Fram kom í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu að tveir umsækjendur hefðu verið metnir hæfastir, þar á meðal Alma.

Blaðamenn Morgunblaðsins óskuðu þá eftir að fá sendar niðurstöður hæfninefndarinnnar og upplýsingar um hver hinn umsækjandinn væri, sem hefði verið metinn hæfastur ásamt Ölmu.

Velferðarráðuneytið svaraði beiðninni á þann veg að samkvæmt upplýsingalögum væri skylt að veita almenningi upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur væri liðinn, eins og verið hafði gert á vef Stjórnarráðsins 8. janúar 2018. Hins vegar tæki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna ekki til gagna í málum sem vörðuðu umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssamband að öðru leyti. Því væri ráðuneytinu hvorki heimilt að veita aðgang að niðurstöðum hæfninefndarinnar né upplýsingar um hvernig umsækjendur röðuðust samkvæmt mati nefndarinnar.

Þessi synjun ráðuneytisins var kærð til úrskurðanefndar um upplýsingamál. Í niðurstöðum nefndarinnar segir, eins og í forsendum velferðarráðuneytis, að álitsgerð hæfnisnefndar feli í sér umsögn um umsækjendur og teljist því undanþegin upplýsingarétti almennings. Er því niðurstaða ráðuneytisins staðfest.

Þess má geta að umsagnir dómnefnda um hæfni umsækjenda um embætti dómara eru jafnan birtar opinberlega. teitur@mbl.is