Við störf Jude O'Reilly og Haraldur Franklín Magnús á The Open Championship á Carnoustie-vellinum í Skotlandi á dögunum.
Við störf Jude O'Reilly og Haraldur Franklín Magnús á The Open Championship á Carnoustie-vellinum í Skotlandi á dögunum. — Ljósmynd/Páll Ketilsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Kylfusveinninn Jude O'Reilly reyndist íslenska hópnum þarfur maður þegar Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur komst fyrstur íslenskra karla inn á risamót.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kylfusveinninn Jude O'Reilly reyndist íslenska hópnum þarfur maður þegar Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur komst fyrstur íslenskra karla inn á risamót. O'Reilly er raunar meira en reyndur kylfusveinn því hann kemur að alls kyns ráðleggingum og þjálfun fyrir atvinnukylfinga.

Morgunblaðið spjallaði við O'Reilly í Carnoustie í Skotlandi á dögunum þegar hann hafði lokið störfum fyrir Harald á The Open Championship. Haraldur og Ingi Rúnar Gíslason golfkennari, sem fylgdi Haraldi til Skotlands, höfðu þá báðir verið ósparir á lofið til handa Íranum. Jussi Pitkänen, afreksstjóri GSÍ, hafði þar hönd í bagga þegar O'Reilly ákvað að aðstoða Harald á The Open.

„Fyrir nokkrum mánuðum síðan spurði Jussi mig hvort ég hefði áhuga á að koma til Íslands og vinna tímabundið með íslenskum kylfingum. Ég hef þekkt Jussa lengi og við höldum sambandi. Við eigum ýmislegt sameiginlegt þegar kemur að skoðunum um hvernig afreksmenn eigi að nálgast íþróttina. Mér líkar hvernig hann hugsar og starfar í tengslum við afreksgolf. Báðir viljum við rannsaka ýmsa þætti og sjá hvað er hjálplegt fyrir kylfinga og hvað ekki. Um þessar mundir er ég ekki fastráðinn hjá einum kylfingi. Ég vinn með nokkrum af og til en starfa ekki sem kylfusveinn eins og staðan er í dag. Ég kem að þjálfun og ráðgjöf fyrir afrekskylfinga sem lúta að öllum þáttum íþróttarinnar fyrir utan sjálfa golfsveifluna. Afrekskylfingar eru yfirleitt með golfkennara sem vinna með þeim í sveiflunni og ég vil ekki trufla þá vinnu. Ýmislegt annað er einnig mikilvægt og ég tel að munurinn á góðum kylfingum og þeim bestu sé andlegi þátturinn. Einnig er undirbúningur fyrir mót og leikskipulag afar mikilvægt.

Þegar Jussi hafði samband þá hafði ég áhuga því ég hef gaman af því að vinna með nýju fólki en einnig að koma að uppbyggingarstarfi þar sem golfíþróttin er í vexti. Þegar unnið er með ungum kylfingum þá er hægt að sá fræjum sem síðar geta orðið að einhverju. Það heillar mig sérstaklega,“ sagði O'Reilly sem var kylfusveinn á The Open í fyrsta skipti árið 1991.

Vann með Clarke og Stenson

Reynsluheimur Jude O'Reilly er ólíkur Íslendinga þegar kemur að afreksgolfi. Hann hefur starfað með kylfingum af báðum kynjum á risamótunum og í stærstu mótaröðunum. Kylfingum sem unnið hafa risamót og leikið í Ryder-bikarnum. Hægt er að tína til nöfn eins og Christy O'Connor, Darren Clarke, Shigeki Maruyama, Padraig Harrington og Henrik Stenson.

„Mikill lærdómur felst í því að fylgjast með þeim í návígi og sjá hvernig vinnubrögðin eru. Hvernig þau skipuleggja sig, hvort sem það er fyrir árið, mánuðinn eða vikuna eða bara hvernig þau skipuleggja líf sitt. Í allri þeirri vinnu sem fylgir því að vera á toppnum í íþróttinni þá þarf viðkomandi að líða nógu vel til að geta kallað fram sínar bestu hliðar á golfvellinum. Þeim bestu tekst að gera það oftar en öðrum, eðli málsins samkvæmt,“ segir Írinn sem var eingöngu kylfusveinn á stóru mótaröðunum í tólf ár en hefur einnig starfað við það af og til í 26 ár eða svo.

„Ég bý núna í Dublin en bjó í Japan í áratug, um það bil ár í Ástralíu og var einnig á Evrópumótaröðinni í nokkur ár og á PGA-mótaröðinni í sex ár. Ég hef unnið sem kylfusveinn á öllum stærstu mótaröðunum nema í Suður-Afríku.“

Eitt erfiðasta höggið í golfi

Hvað fannst O'Reilly um frammistöðu Haraldar á The Open ? „Í fyrsta lagi var dásamlegt fyrir hann að vinna sér inn keppnisrétt á mótinu. Margir topp-kylfingar komast ekki inn í mótið og því er það mikið afrek eitt og sér. Ofan á það bætist að hann er fyrsti íslenski karlinn sem leikur á risamóti. Ég hef verið kylfusveinn á öllum risamótunum og fyrir mér er The Open stærst þeirra. Þetta mót reynir á fleiri þætti leiksins og reynir meira á þolrif kylfingsins. Ef við skoðum skorið hjá honum þá er skemmtilegt að skoða seinni níu holurnar á fyrsta keppnisdegi þegar hann lék á 32. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi gert betur en Haraldur á seinni níu á fyrsta keppnisdegi. Það er stórmerkilegt. Kylfingar þurfa að geta staðið sig í hæsta gæðaflokki og reyna að gera það oftar. Hann þarf því að finna út úr því hvað kallar fram slíka frammistöðu og ná því oftar. Haraldur var góður í öllum þáttum leiksins og hitti til að mynda margar brautir. Hægt er að taka dæmi um hvernig hann lék 9. holuna. Margir kylfingar á mótinu myndu borga miklar upphæðir til að geta leikið hana jafn-vel og Haraldur gerði. Auðvitað var frábært hvernig hann spilaði 17. og 18. á fyrsta hringnum (fékk fugl á þær báðar) og margar aðrar. Hann tókst á við völlinn af skynsemi án þess þó að vera of varkár. Frammistaða hans var í háum gæðaflokki en auðvitað var þetta nýtt umhverfi fyrir hann. Ég hefði orðið mjög undrandi ef honum hefði ekki þótt óþægilegt að spila fyrstu holurnar á risamóti. Nánast allir kylfingar í mótinu finna fyrir því á einhverjum tímapunkti í svona móti en fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir því. Allir þeir bestu verða taugaveiklaðir á einhverjum tímapunkti en spurning er hvernig fólk tekst á við þá stöðu. Að standa á 1. teig á The Open er mögulega erfiðasta högg sem kylfingur þarf að slá á ferlinum. Nú hefur hann kynnst því.“

Búa þarf sig undir rússíbana

Hvað getur Írinn ráðlagt efnilegum íslenskum kylfingum sem búa nyrst í álfunni? Hefur hann til dæmis skoðun á því hvort heppileg leið sé að fara til Bandaríkjanna og keppa í háskólagolfinu meðfram skólagöngu?

„Allir eru ólíkir og ég vil því ekki gefa ráð sem eru almenn. Þetta veltur á persónu hvers og eins en einnig á fjölskylduaðstæðum. Vissulega er gott tækifæri að keppa í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Samkeppnin er til staðar og aðstæður eru góðar varðandi vellina, æfingasvæðin og veðrið. Fólk þarf að vanda valið þegar kemur að því að velja skóla og skólalið. Þegar kemur að börnum og unglingum þá er mikilvægt að reyna sig einnig í öðrum íþróttum og hafa gaman af því að spila golf. Njóta þess að takast á við áskoranir eins og að slá mismunandi högg. Slík vinna skilar sér alltaf. Þegar fólk nær árangri þá getur gerst að fólk fari að taka golfið of alvarlega of snemma. Galdurinn er að taka íþróttina alvarlega en hafa gaman af henni um leið. Líf atvinnukylfinga í mótaröðunum er tilfinningarússíbani. Þar kynnist fólk hæðum og lægðum. Ef fólk hefur metnað til að komast í þann gæðaflokk þá þarf það að búa sig undir slíkar sveiflur. Viðkomandi þarf að hafa metnaðinn, drifkraftinn og hörku til að æfa af krafti og halda sig við efnið,“ sagði Jude O'Reilly.

Jude O'Reilly
» Var kylfusveinn hjá Haraldi Franklín Magnús á The Open Championship á dögunum.
» Virtur maður meðal atvinnukylfinga og þjálfara.
» Er frá Írlandi og kynntist þar afreksstjóra GSÍ.
» Hefur unnið með kylfingum af báðum kynjum og á öllum risamótunum.