Ópera Gunnar og Aðalsteinn hneigðu sig ásamt Michelle Pedersen eftir vel heppnaða sýningu í San Marínó.
Ópera Gunnar og Aðalsteinn hneigðu sig ásamt Michelle Pedersen eftir vel heppnaða sýningu í San Marínó. — Ljósmynd/Ólafur Håkansson
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Óperusöngvararnir Aðalsteinn Már Ólafsson og Gunnar Björn Jónsson voru fengnir í aðalhlutverk í ítölsku óperunni Lucia di Lammermoor.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Óperusöngvararnir Aðalsteinn Már Ólafsson og Gunnar Björn Jónsson voru fengnir í aðalhlutverk í ítölsku óperunni Lucia di Lammermoor. Þeim var boðið að taka þátt í óperusmiðju sem fór fram í litlum bæ á Ítalíu á stærð við Ísafjörð, Novafeltria. Fimm sýningar voru í bænum og nágrenni. Íslendingarnir tveir voru hluti af 74 manna hópi sem tók þátt í verkefninu.

„Þetta byrjaði með því að maður að nafni Joseph Rescigno, hljómsveitarstjóri sýningarinnar, kom til landsins síðasta vetur og var með námskeið í óperusöng. Við mættum þangað og sungum fyrir hann og í framhaldinu vildi hann fá okkur með í óperusmiðju,“ segir Aðalsteinn. Hann er menntaður verkfræðingur en byrjaði að syngja óperur fyrir 10 árum. „Ég hef verið í þessu með náminu en hef ekki náð að helga mig söngnum fyrr en núna.“

Sýningarnar kröfðust mikils undirbúnings og þurftu söngvararnir báðir að fínpússa ítalska framburðinn. „Fyrstu þrjár vikurnar fóru í að læra ítölsku og svo vinna með sérfræðingum og söngkennurum og setja upp óperuna. Við vorum frá morgni til kvölds að læra ítölskuna og fá tilfinningu fyrir tungumálinu, til þess að tileinka okkur réttan stíl fyrir óperuna,“ segir Aðalsteinn. „Fimm sýningar voru skipulagðar í bænum Novafeltria og nágrenni, þar á meðal í San Marínó. Vanalega hafa tvær til þrjár sýningar verið settar upp á ári.“ Aðalsteinn segir að fólk hafi almennt verið sammála um að í ár hafi verið besti tónlistarflutningur sem hefur heyrst í óperusmiðjunni.

Gunnar segir verkefnið hafa verið hvetjandi og reynsluna dýrmæta. „Það er öðruvísi að syngja á Íslandi, þá er maður tengdur öðru lífi og í vinnunni og annað. En þegar maður fer út í svona verkefni gefst tækifæri til að lifa og hrærast í þessu. Þetta er góður innblástur til að halda áfram á sömu braut.“ Gunnar er menntaður múrari frá Akureyri. Hann segir að í söngnámi vanti oft upp á reynslu á leiksviði og því hafi verkefnið verið frábært tækifæri. „Þetta er erfiður bransi, það er ekki nóg að hafa bara góða rödd. Óperusmiðjan gaf mér meiri kraft til að vinna með þetta og koma mér áfram.“