Eyþór Árnason, ljóðskáld og tónlistarunnandi.
Eyþór Árnason, ljóðskáld og tónlistarunnandi. — Morgunblaðið/Hari
Þegar Eyþór Árnason varð 64 ára hélt hann upp á afmælisdaginn með ljóðabók sem hefur að geyma 64 ljóð. Hann segist hafa gefið bókina út á vitlausasta degi sem hægt sé að hugsa sér til að gefa út ljóðabók. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Síðastliðinn fimmtudag hélt Eyþór Árnason útgáfuhóf til að fagna sinni nýjustu ljóðabók, Skepnur eru vitlausar í þetta , sem Veröld gefur út. Dagurinn var valinn vegna þess að Eyþór átti afmæli sama dag, varð 64 ára, og það eru einmitt 64 ljóð í bókinni. Reyndar segir Eyþór að þessi útgáfudagur hafi verið „vitlausasti dagur sem hægt er að hugsa sér til að gefa út ljóðabók, fimmtudagur fyrir verslunarmannahelgi. Það er kannski hægt að auglýsa farðu í ríkið, fáðu þér bokku og bók í leiðinni,“ segir Eyþór og skellir upp úr. „64 ljóð og 64 ára afmælisdagur — það er kveikjan að því að gefa bókina út þennan dag, mér fannst það fyndið. Líka að það mætti auglýsa að það væri frábært að fara með bókina í útileguna og hjólhýsið og á Þjóðhátíð og allt það.“

– Ertu með eitthvert þema í bókinni sem tengir ljóðin saman?

„Ég skipti bókinni í fjórar hliðar, það má hugsa um þetta eins og gamalt plötualbúm, tvöfalt albúm. Þær eru aðeins mismunandi, ég reyni að raða þessu í efnisflokka eftir hverri hlið, og misjafnt hvernig það tekst nú. Það er smá hrærigrautur á fyrstu hliðinni og svo kemur sveitin sterk inn á annarri hliðinni og minningar úr sveitinni, ég er svo mikill sveitamaður í mér, og minningar um fólk. Svo er hitt og þetta á þriðju hliðinni og svo koma plötuumslögin á fjórðu hliðinni og þá er gott fyrir fólk að gúggla, þeir sem eru ekki eru kunnugir þurfa kannski að fletta því upp hvað Look at Yourself þýðir til dæmis,“ segir Eyþór og les upp brot úr ljóðinu Júlímorgunn ... Maður líttu þér nær!: „Dreg svo andann djúpt / og held honum niðri / í tíu mínútur og þrjátíu og sex sekúndur // horfi á mig blána meir og meir / veröldin leysist upp / ég sé gegnum spegilinn ... og svo framvegis.“

– Eru ljóðin ort á löngum tíma?

„Á tveimur árum, frá því síðasta bók kom út. Ég átti bara ekki von á þessu. Svo fór ég til Kanaríeyja og var í stuði í hálfan mánuð og þá datt eitt og annað inn og fór að koma mynd á þetta. Þá fór ég að sjá að þetta gæti orðið eitthvað, en ég gríp bara í þetta á kvöldin.

Það var svolítið púsl að raða þessu saman í hliðarnar, maður hendir þessu saman skyndilega og svo snýr maður þessu við og kippir þessu til baka, færir fram og til baka og svo er að finna nafn á ósköpin. Það getur orðið snúið, en þetta hefur verið þannig í gegnum árin að ég hef stolið línu eða setningu úr einhverju ljóðinu og þannig kom skepnan til, þetta er hluti af sveitasinfóníunni í bókinni.“

– Þú hefur ort fallega um sveitina í bókum þínum.

„Já, ég vona það. Ég er náttúrlega óforbetranlegur sveitamaður. Ég var svo gamall þegar ég fór endanlega til Reykjavíkur, því ég vissi ekki hvort ég ætlaði að verða bóndi eða eitthvað annað.“

– Sérðu eftir því að vera að smala orðum en ekki fé?

„Nei, ég sé ekkert eftir því. Ég sé eftir því að fara í smalamennsku, ég sé stundum eftir því að vera ekki að elta fé, en ég hefði ekki orðið góður bóndi, ég var ekkert sérstaklega fjárglöggur.“