Leikþáttur „Þetta er eins konar leikþáttur í höndum örlaga. Það er einhver tilfinning í myndinni sem ég tel að fólk skynji þegar það horfir á hana,“ segir Harpa um þetta verk sitt sem er hluti af sýningu hennar fyrir norðan.
Leikþáttur „Þetta er eins konar leikþáttur í höndum örlaga. Það er einhver tilfinning í myndinni sem ég tel að fólk skynji þegar það horfir á hana,“ segir Harpa um þetta verk sitt sem er hluti af sýningu hennar fyrir norðan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Þetta fjallar um hvað manneskjan getur verið stór en á sama tíma alveg ótrúlega lítil í hinu stóra samhengi,“ segir Harpa Björnsdóttir myndlistarkona sem opnar sýningu í Kompunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í dag. Sýningin nefnist Mitt fley er lítið en lögur stór og fjallar um vægi manneskjunnar í hinum stóra heimi.

Á sýningunni má sjá innsetningu í bland við ljósmyndir og skúlptúr, en hugmynd Hörpu er að verkin sem til sýnis eru tengist þannig að fólk upplifi í raun eitt heildarverk.

Hugsað út frá sjónum

Harpa segir að upplifun fólks af sýningunni geti verið afar misjöfn en hún vonist þó til að fólk átti sig á hinu stóra samhengi sýningarinnar.

„Ég byrjaði að hugsa þetta út frá sjónum og hversu lítil ein manneskja er í samanburði við hann. Þessi sami maður er hins vegar með stóra veröld innra með sér. Þá er ég að tala um tengingar við annað fólk, ástina á sjálfum sér og allar þessar tilfinningar sem búa í manneskjum,“ segir Harpa, sem kveðst ekki hafa haldið álíka sýningu áður.

Þá sé stíll sýningarinnar talsvert frábrugðinn stíl fyrri verka hennar. „Síðustu sýningar hjá mér hafa ekki verið sambærilegar við þessa. Þegar ég hóf ferilinn, var ég í nýlistadeild en í henni lætur maður hugmyndina ráða efni. Síðan færði ég mig yfir í málverk, grafík og skúlptúr. Með þessari sýningu má segja að ég sé að fara aftur í það sem ég byrjaði á. Ég er því í raun að koma heim,“ segir Harpa.

Ferillinn spannar nú 35 ár

Listamannsferill Hörpu spannar nú um 35 ár en hún hefur verið afar virk á vettvangi myndlistar og menningarmála hér á landi. Þá hefur hún haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í yfir 50 samsýningum, á Íslandi og erlendis. Harpa útskrifaðist úr Myndlista- og handverksskóla Íslands árið 1983 og hélt sama ár fyrstu sýningu sína.

„Ég hef frá þessum tíma notast við ólík efni og haldið ýmiss konar sýningar. Allt á þetta þó sameiginlegt að byrja sem lítil hugmynd sem á einhverjum tímapunkti er tilbúin. Oft endar þetta síðan allt öðruvísi en maður hafði gert sér í hugarlund í upphafi,“ segir Harpa.

Sýningin tengist hafinu

Spurð hvers vegna ákveðið hafi verið að halda sýninguna á Siglufirði segir Harpa margvíslegar ástæður liggja þar að baki.

„Þessi sýning tengist auðvitað sjónum og þá kemur Siglufjörður strax upp í hugann. Ég hef í gegnum tíðina verið dugleg að heimsækja bæinn og það má segja að ég sé með óbein tengsl þangað. Pabbi og afi voru auðvitað sjómenn og miklar hetjur, sýningin tengist þeim einnig á ákveðinn hátt. Þess utan heldur Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, vinkona mín, utan um sýninguna og hún hvatti mig til að halda hana þarna. Hún er algjör orkubolti og rífur upp menningarlífið sama hvar hún kemur. Það er eitthvað sem fær mann til að vilja halda sýningu þar sem hún er,“ segir Harpa og bætir við að hún njóti þess að framkvæma innsetningu í rýmum á vegum Aðalheiðar. „Ég hef áður haldið innsetningu í rýmum sem hún hefur séð um. Mér hefur alltaf fundist gaman að taka hugmyndir og vinna með þær inni í rýminu,“ segir Harpa.