[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Heimir Hallgrímsson , fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, verður ekki næsti knattspyrnustjóri Basel í Sviss.

* Heimir Hallgrímsson , fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, verður ekki næsti knattspyrnustjóri Basel í Sviss. Marcel Koller var ráðinn þjálfari Basel í gær en Heimir var orðaður við starfið á dögunum og samkvæmt svissneskum fjölmiðlum ræddi umboðsmaður Heimis við félagið. Koller hefur stýrt austurríska landsliðinu í knattspyrnu undanfarin sex ár en hann er reynslumikill þjálfari sem hefur unnið svissnesku úrvalsdeildina í tvígang með St. Gallen árið 2000 og Grasshoppers árið 2003.

* Kylfingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Andri Þór Björnsson urðu jafnir í 13.-17. sæti á Made in Denmark-mótinu í Nordic Golf-mótaröðinni, en þriðji og síðasti hringurinn var leikinn í gær.

Guðmundur var í betri stöðu fyrir gærdaginn en Andri lék á 72 höggum, einu höggi yfir pari, og Guðmundur á 74 höggum, þremur höggum yfir pari, og enduðu þeir því jafnir á samanlagt pari. Haraldur Franklín Magnús lék hringinn í gær á 73 höggum og er samanlagt á átta höggum yfir pari og í 48.-54. sæti.

* Markmaðurinn Ögmundur Kristinsson er genginn í raðir gríska úrvalsdeildarfélagsins AEL Larissa. Ögmundur lék síðast með Excelsior í hollensku deildinni. Hann skrifar undir tveggja ára samning við gríska félagið, sem hafnaði í 12. sæti af 16 liðum deildarinnar á síðustu leiktíð.