— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Verra var það, að 6-7 árum fyrr missti CIA algjörlega af því hvað var að gerast í Kreml þegar Andropov, þáverandi Sovétleiðtogi, var farinn á taugum og taldi að flest benti til að Bandaríkin væru að hefja kjarnorkuárás á Sovétríkin og þau neyddust sennilega til að verða fyrri til!

Fangelsi hafa gjarnan verið kölluð „vinnuhæli“ eða „betrunarhús“ eða eitthvað í þeim stíl, auk áherslunnar á frelsissviptinguna. Vissulega er refsiþátturinn mikilvægur, bæði vegna ætlaðra varnaðaráhrifa og eins vegna hvers konar tjóns og miska sem brotaþolar, beinir og óbeinir, verða fyrir. Ef ríkisvaldið horfir ekki til slíkra þátta má ætla að eitt brot kalli á fleiri. Sagan kennir að þeir sem áttu um sárt að binda, sómans vegna eða annars missis, hlutu þá að láta til sín taka, þessi grunneining einkareksturs þegar opinberan vilja eða getu vantar.

Afgerandi refsing

Þeim lýðræðisríkjum fækkar sem telja dauðarefsingar réttlætanlegar. Ætla mætti þó að varnaðaráhrif hástigs allra refsinga séu meiri en annarra. En mörgum þykir sjálfsagt að munurinn á skilyrðislausu fangelsi til lífstíðar og á aftöku sé næsta naumur.

Í Bandaríkjunum þekkist það vel að dauðadæmdur maður fær í raun tvo dóma fyrir einn. Eftir dauðadóminn tekur við áfrýjunarferli sem getur staðið yfir árum eða áratugum saman. Lögfræðingar kvarta ekki. Fanginn er geymdur á meðan í einangrun á „dauðadeild“. Oftast er þetta langa þóf árangurslaust og er dauðadómnum framfylgt. Lögð er höfuðáhersla á að fanginn, sem hefur kvalist í áratug eða svo, kveljist alls ekki lengur en í eina mínútu, þegar stóra stundin kemur.

Fangavænir

Þá hefur hinn sakfelldi oft setið lengur í einangrun en maður sakfelldur fyrir morð á Norðurlöndum þyrfti til endanlegrar afplánunar fyrir sinn glæp og aðbúnaður hans að auki allur annar og betri. Ekki hafa þó allir morðingjar velferðarríkjanna aðbúnað á borð við þann sem fjöldamorðinginn Anders Breivik nýtur (myrti 77) með sína þriggja klefa svítu og sér baðherbergi og sturtu, og kvartar þó. Sá ódráttur var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir hryllinginn sinn.

Það þætti með ólíkindum vel sloppið víðast, en þess er þá að geta að Breivik verður þó ekki látinn laus eftir almanakinu nema að áður hafi farið fram mat á því að það teljist óhætt. Verði niðurstaðan sú að því fari fjarri, eins og líklegt er, má framlengja hald hans um 5 ár í senn svo oft sem það er talið nauðsynlegt.

Dauðadóm og „betrun“ er ekki hægt að ræða í sömu andrá fremur en ævilangt fangelsi án kosts á reynslulausn. Sama kann að gilda um aðra fangelsisþvingun um langa hríð, jafnvel í einangrun í smábúrum lungann af hverjum sólarhring.

Víti til varnaðar

En varnaðaráhrif þess að ríkisvaldið taki fast á afbrotum eru ótvíræð. Spurningin snýst þá um það hversu hart þurfi að ganga fram svo eftirsóttur árangur náist og þá um hina spurninguna hversu mild viðbrögðin megi vera, en þó duga til í flestum tilvikum.

Ef horft er til þess hve oft dæmdir morðingjar, sem fengið hafa lausn, hafa gerst sekir um sambærilegan verknað aftur á Norðurlöndum, þá verður ekki betur séð en að „mildi og mannúð“ í bland við refsingar velferðarríkjanna, hafi ratað vandfundinn milliveg. Og eins verður ekki betur séð en þolendur verknaðarins sem sakfellt var fyrir umberi það a.m.k. hvernig ríkisvaldið standur að því að „ná fram hefndum“ fyrir þeirra hönd.

Forysturíki fótar sig ekki

Bandaríkin njóta aðdáunar vegna árangurs þeirra, frumkvæðis og stuðnings við frelsishugsjónir og fyrir að hafa tryggt sigur gagnvart ógeðslegum stjórnarstefnum eins og þeim sem Hitler og Stalín voru ímynd fyrir. Kannski þess vegna eru velunnarar þessa mikla ríkis stundum dálítið undrandi yfir sumu sem þar þrífst. Þetta á við um réttarríkið og veika stöðu þeirra einstaklinga sem hafa lítil efni og eins hvernig handhafar ríkisvaldsins geta beitt ofurafli sínu til að ná öllu fram. Sumu af því verður ekki líkt við annað en bolabrögð gagnvart ákærðum mönnum.

Mjög sérstakur saksóknari

Robert Mueller var skipaður sem sérstakur saksóknari til að rannsaka meint samsæri Trumps og Pútíns í aðdraganda forsetakosninga, án þess að nokkurt tilefni hafi verið tilgreint. Saksóknarinn er oft í fréttum þessa dagana. Í tæp tvö ár hefur hann ásamt þéttum hópi saksóknara úr stuðningsliði demókrata „hinum 17 eitruðu“ eins og Trump kallar þá, verið að handtaka og yfirheyra menn sem komu eitthvað að kosningabaráttu Trumps og þó stundum næsta lítið og reynt að fá þá með hótunum um málaferli og fangelsun vegna annarra málefna til að vitna gegn forsetanum.

Furðumál gegn Flynn herforingja hefur ekki þokast neitt, en hann gafst upp á að standa í vörnum fyrir sig þegar hann sá að það stefndi í gjaldþrot hans og fjölskyldunnar innan fárra vikna.

Manafort

Nú er mál uppi gegn manni sem heitir Paul Manafort og starfaði sem kosningastjóri fyrir Trump í fáeina mánuði. Hugsanleg brot hans, sem Mueller er að rannsaka, koma Trump ekkert við. Þau snúast um skatta- og bankamál á árunum 2000-2008, hálfum öðrum áratug áður en Manafort kom til starfa í fáeina mánuði fyrir framboð Trumps.

Manafort er nú haldið í fangelsi til að auka pressuna á hann og honum er hótað því að verða dæmdur í svo þunga refsingu að hann tæplega sjötugur maður ætti aldrei afturkvæmt lifandi út úr fangelsi. Meira að segja alríkisdómarinn í málinu,T. S. Ellis, sagði í opnu réttarhaldi að saksóknarinn hefði augljóslega engan áhuga á Manafort eða hugsanlegum brotum hans. Hann væri eingöngu að vinna að því að fá hann dæmdan til áratuga fangavistar til að geta notað þann ógnarvönd á manninn til að fá hann til að vitna gegn Trump um eitthvað sem saksóknarar vita ekki hvað er og þá fá að sleppa við refsingu vegna glæpa sem fullyrt er að séu svona alvarlegir!

Á sama tíma er hinn sérstaki saksóknari að semja við demókrata, nátengda kosningabaráttu H. Clinton, sem hafa sömu eða sambærilegar ástæður og Manafort þessi til að hanga handan rimla í áratugi, um algjöra sakaruppgjöf finni þeir eitthvað eða fabúleri sem þeir geta vitnað um og geri saksóknaranum auðveldara að sakfella Manafort. Allt er þetta einkar ógeðfellt og fjarri hugmyndum raunverulegra lýðræðisríkja um það hvað réttarríkið sé og um hvað það snúist.

Ankannalegar ákærur

Mikið fjaðrafok varð þegar sami saksóknari, Robert Mueller, birti ákæru á hendur 12 mönnum, sem allir voru sagðir njósnarar rússneskra yfirvalda, fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á og skaða framgang kosninga í Bandaríkjunum haustið 2016. Það fjaðrafok varð ekki eins og ætla mætti vegna þess að saksóknarinn birti ákærurnar þremur dögum fyrir ætlaðan fund leiðtoga ríkjanna, sem engin efni stóðu til.

Demókratar gripu ákærurnar glóðvolgar, gengu af göflunum eins og þeir hafa gert nær daglega síðan Trump var kjörinn. Þeir kröfðust þess að forsetinn hætti þegar í stað við fundinn með Pútín.

Hefðbundnu fjölmiðlarnir fjölluðu um þessar ákærur með þeim hætti að ætla mætti að þeir hefðu ekki lesið þær. Hér heima létu hinir ólesnu á fréttastofu „RÚV“ eins og venjulega. Þeir hefðu betur hlustað fyrst á lagaprófessorinn Alan Dershowitz, einn frægasta verjanda Bandaríkjanna, sem reyndar hefur verið talinn til „frjálslyndra afla“ vestra, þ.e. demókrata.

Prófessorinn benti á hið augljósa að ákærur saksóknara væru alla tíð aðeins önnur hlið málsins. Slíkar ákærur þyrfti að sannreyna fyrir dómi. Í þessu tilviki hefðu ákærendur þó ekki neinar áhyggjur af þeim þætti, því að þeir vissu að enginn dómstóll myndi nokkru sinni líta á þær. Þeir gætu því sagt hvað sem væri þar.

Hefðu hinir ólesnu lesið ákærurnar þá hefðu þeir sennilega orðið gáttaðir.

Hinir ákærðu Rússar voru sagðir beintengdir við menn sem væru sennilega beintengdir við Kreml. Þeir hefðu ætlað sér að fremja skemmdarverk í bandarísku alríkiskosningunum. Saksóknarar teldu ljóst að þeir hefðu varið til þess verks 95.000 dollurum!

Saksóknararnir ákváðu að ákæra Rússa fyrir peningaþvott vegna þeirrar fjárhæðar. Rússland ætlaði sér með öðrum orðum að fremja hermdarverk á bandarískum kosningum og veittu til þeirrar atlögu upphæð sem svarar til tíu milljóna íslenskra króna. Það hljómar sem svipuð upphæð og sú sem var sögð hafa verið notuð til að hafa áhrif á kosningar til stjórnar Neytendasamtakanna!

Þeim hefur farið stórlega aftur þarna í Kreml því þetta er aðeins brot af framreiknuðum upphæðum sem þaðan var veitt til stjórnmálastarfsemi íslenskra sósíalista forðum tíð, sem Samfylkingin nýtur nú góðs af í skrifstofum sínum og mætti þó margfalda þær upphæðir með 1.000 vegna stærðarmunar þjóðanna.

Upp- og eftirköst

En Trump gerði ekkert með þetta upphlaup fremur en önnur úr sömu átt og átti sinn fund með Pútín. Fund sem Henry Kissinger sagði nýlega í viðtali við FT að hefði verið algjörlega óhjákvæmilegt að halda og fyrir löngu kominn tími á.

En þegar menn þóttust geta lesið það úr orðum forseta Bandaríkjanna á blaðamannafundi að hann tæki jafnmikið mark á yfirlýsingum Pútíns og bandarískrar leyniþjónustu, þótti góðkunningjum í fréttaveitum vestra að eitthvað hryllilegt hefði gerst.

John Brennan, sem verið hafði forstjóri CIA og er nú launaður álitsgjafi hjá CNN, dró ekki af sér. Hann sagði Trump hafa gert sig sekan um landráð. Við því liggur að dæma skuli þann mann til dauða í Bandaríkjunum.

Brennan þessi hefur svo oft gerst sekur um dómgreindarleysi og vanstillingu síðustu ár og að fara hvað eftir annað eiðsvarinn með skrök við yfirheyrslur þingnefnda að stórundarlegt er að Obama hafi gert hann að forstjóra CIA.

Trúa skal leyniþjónustum hvað sem tautar

Og öll vinstrielítan hefur nú algjörlega skipt um kúrs. Henni finnst algjörlega ómögulegt að CIA og öllum hinum 16 leyniþjónustunum skuli ekki trúað eins og nýju neti hvenær sem þær hósta einhverju upp.

Öðruvísi mörgum áður brá.

Það hefur nú legið fyrir í hálfan annan áratug að það reyndist heldur lítið að marka CIA þegar hún fullyrti að Saddam Hussein hefði komið sér upp gereyðingarvopnum og undirstrikaði að sú fullyrðing væri hafin yfir allan vafa („slam dunk“ á körfuboltamáli).

CIA með sína 300.000 starfsmenn komst ekki að því að Sovétríkin væru að hrynja fyrr en eftir að Austur-Þjóðverjar tóku að hrúgast yfir múrinn. Það gerði svo sem ekki mikið til. Verra var það, að 6-7 árum fyrr missti CIA algjörlega af því hvað var að gerast í Kreml þegar Andropov, þáverandi Sovétleiðtogi, var farinn á taugum og taldi að flest benti til að Bandaríkin væru að hefja kjarnorkuárás á Sovétríkin og þau neyddust sennilega til að verða fyrri til! (Sjá Taylor Downing: 1983 Reagan, Andropov and a World on the Brink).

Robert Gates, síðar varnarmálaráðherra, sem þá var aðstoðarforstjóri CIA, hefur fjallað um þessa atburði með sláandi hætti og hversu alvarlegir þeir voru, og einkum það að leyniþjónustan hafði engan pata haft af því sem var að gerast!

Þá má ekki gleyma því að þrír forkólfar leyniþjónustanna trítluðu til Obama fráfarandi forseta og Trumps nýkjörins forseta með nú alræmda aðkeypta samsuðu fyrrverandi njósnara Breta, Christopher Steele, sem kosningastjórn Hillary Clinton hafði pantað og greitt, eins og um stóralvarlegt plagg væri að ræða. Þeir hefðu eins getað tölt um með notaða matreiðslubók.

Sú „skýrsla“ er hinn raunverulegi grunnur að hinni skrítnu rannsókn sérstaks saksóknara.

Það er algjörlega óskiljanlegt að allur sá aðdragandi hafi ekki verið rannsakaður í þaula.

Kannski kemur að því.

Því fyrr því betra.