Veisla Sala á osti hefur minnkað og minnkar enn með meiri innflutningi.
Veisla Sala á osti hefur minnkað og minnkar enn með meiri innflutningi.
Sala mjólkurafurða minnkaði um 7,7% í júnímánuði, miðað við sama mánuð á síðasta ári. Helsta ástæðan er samdráttur í sölu á smjöri og öðru viðbiti.

Sala mjólkurafurða minnkaði um 7,7% í júnímánuði, miðað við sama mánuð á síðasta ári. Helsta ástæðan er samdráttur í sölu á smjöri og öðru viðbiti. Skýrist samdrátturinn að stórum hluta af því að óvenju mikið var selt af smjöri í júní í fyrra vegna tilboðs hjá MS. Sala á viðbiti er hins vegar meiri í júlí í ár þannig að reikningarnir jafnast nokkuð.

Auk samdráttar í sölu á viðbiti sýna bráðabirgðatölur Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði samdrátt í sölu á mjólk og sýrðum vörum og skyri í júní og einnig ef litið er til sölunnar síðustu tólf mánuði miðað við sama tímabil árið á undan.

KEA-skyr lætur undan síga

Samkvæmt upplýsingum Aðalsteins H. Magnússonar, sölustjóra hjá Mjólkursamsölunni, minnkaði sala á léttmjólk og KEA-skyri. Aftur á móti jókst sala á nýmjólk í júní og Ísey-skyri ásamt rifnum ostum. Aðalsteinn segir einnig ánægjulegt að sjá jákvæðar viðtökur skyr- og jógúrtdrykkja í pappafernum með tappa en þessar vörur voru áður seldar í plastumbúðum.

Á meðan salan á innanlandsmarkaði minnkar heldur innvigtun á mjólk frá bændum að aukast. Fyrstu sex mánuði ársins jókst hún um 3,6 milljónir lítra sem svarar til 4,7% aukningar. helgi@mbl.is