Ólafur Elíasson hefur unnið í marga mánuði að nýrri innsetningu sem gestir í tilraunaeldhúsinu SOE 101 geta notið á meðan þeir gæða sér á mat systur hans.
Ólafur Elíasson hefur unnið í marga mánuði að nýrri innsetningu sem gestir í tilraunaeldhúsinu SOE 101 geta notið á meðan þeir gæða sér á mat systur hans. — Morgunblaðið/Ásdís
Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur gengið íslenskar fjörur og safnað því sem þar rak á land.

Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur gengið íslenskar fjörur og safnað því sem þar rak á land. Það nýtir hann í innsetningu sem nú má sjá í Marshall-húsinu, en á næstunni verður opnaður þar SOE Kitchen 101, sprettiveitingastaður hans og systur hans Victoríu Elíasdóttur. Í loftinu hanga glerhnettir og áttavitar sem búnir eru til úr efniviði íslenskra stranda. Gestir geta notið matar og um leið upplifað rýmið, sem er vandlega skipulagt til þess gleðja augað og andann. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það er sönn ánægja að fá að elta Ólaf Elíasson upp á vinnustofu hans í Marshall-húsinu við höfnina og hlusta á hann ræða hugmyndirnar að baki nýjustu verkum hans. Á borðum og í hillum kennir ýmissa grasa; þar liggur efniviður listamannsins; rekaviður, flotholt, lím, úðabrúsar, áhöld, seglar, vírar, baujur og annað mannanna rusl sem rekið hefur á Íslandsstrendur. Úr öllu þessu hefur Ólafur skapað hangandi listaverk; óróa sem eru heimatilbúnir áttavitar og eiga að fylla rýmið á SOE 101. Kannski gefst fólki tækifæri á að staðsetja sig í heiminum, sem er stór og flókinn og við dálítið áttavillt. Fyrir hina sem eru með áttirnar á hreinu er hægt að njóta matar Victoríu og myndlistar Ólafs Elíassonar í þessu þriggja mánaða tilraunaeldhúsi þeirra systkina.

Gersemar strandarinnar

Ólafur sækir bæði hugmyndir og efnivið til Íslands, þar sem rætur hans liggja.

„Ég og mitt fólk tíndum rekavið úr fjörum, eins og ég hef oft áður gert. Snemma í vor, í mars eða apríl, keyrðum við á Strandir og hreinsuðum nánast ströndina af ýmsu dóti, en þar má oft finna alls kyns spennandi hluti. Í raun er þetta mengun, og svo rekaviður. Við fylltum bílinn nokkrum sinnum með öllum þessum gersemum strandarinnar. Og með þessum fundnu hlutum og rekaviði, ásamt efni sem ég kom með frá Berlín, bjó ég til 24 lítil listaverk sem eiga það sameiginlegt að vera áttavitar,“ segir Ólafur, en hann er mikill áhugamaður um áttavita. Hann nefnir að í dag sé nánast ekki hægt að kaupa venjulegan áttavita, enda allir með innbyggðan áttavita eða GPS-tæki í símum sínum og ekki er lengur þörf á gamla góða áttavitanum.

„Ég safna áttavitum og á í Berlín gott safn af þeim, aðallega úr skipum. Það sem mér finnst spennandi er að ef þú hengir segul í band bendir hann í norður. Þannig að þegar ég hengi upp segul í ákveðnu rými sé ég ekki bara í hvaða átt norður er heldur einnig hvernig rýmið snýr. Þannig að þessi ljóðrænu verk eru í raun öll áttavitar og snúa öll í sömu átt,“ segir Ólafur, sem hyggst síðar leyfa þessum verkum að fara á aðrar sýningar víða um heim.

„Ég held það væri ákaflega fallegt ef mér tækist að dreifa þessum íslensku áttavitum um heiminn. Eftir þessa sýningu ætla ég að fara með þá víða; til Ástralíu, Beirút, Hong Kong, Kanada, Suður-Afríku og til fleiri staða. Ímyndaðu þér að allir þessir áttavitar, eftir að hafa hangið hér, munu hanga á öllum þessum stöðum heimsins. Og þeir munu samt sem áður alltaf benda í norður, og hanga í sömu átt og hér. Þeir benda allir í norður, ekki endilega til Íslands, en nálægt því. Þannig verða þeir nánast eins og flokkur fugla sem allir snúa í sömu átt,“ segir Ólafur.

Rýmið og raunveruleikinn

Hver er hugsunin á bak við þessa áttavita? Er það að finna sinn stað í heiminum, eða að finna sína leið?

„Það snýst um að rata rétta leið. Á hafinu eru engir vegir þannig að það þurfti að nota áttavita til þess að vita hvert maður væri að fara, en einnig til að vita hvar maður var. Áttaviti er kjarninn, hann sýnir þér hvar þú ert og hvert áttirnar liggja. Ég er nógu gamall til þess að muna þegar maður gekk um náttúruna með áttavita og það er ekkert leyndarmál að ég var ekkert sérlega góður í því! En ég lærði að ganga um hálendi Íslands með áttavita þegar ég fór í ferðir með Útivist sem unglingur. Þannig að ég lærði á áttavita,“ segir hann.

„Ég hef mjög mikinn áhuga á tilfinningunni fyrir rými og fyrir mér er áttavitinn tækifæri til þess að vita í hvaða átt maður snýr. Þegar maður er inni í húsi veit maður oft ekki hvað er í suður og hvað í norður.“

Er mikilvægt að vita það?

„Mér finnst mikilvægt í þessum heimi að tapa ekki tilfinningunni að vita hvar maður er. Það er sífellt erfiðara að finna leiðir raunveruleikans og þetta hefur einnig með það að gera að raunveruleikinn er miklu minna raunverulegur en við höldum. Við erum oft minnt á það að það sem við héldum vera raunverulegt í gær reynist í dag vera falskt eða gervi. Að sumu leyti sýnir það okkur samt sem áður að gjörðir okkar hafa áhrif á raunveruleikann. Verst er þegar raunveruleikinn stendur í stað og verður hlutlaus. Ekkert mun breytast nema við tökum sjálf þátt í að breyta.“

Langborð undir glerhnöttum

Yfir borðum í veitingasal Marshall-hússins, þar sem SOE 101 sprettiveitingastaðurinn (e. pop-up) verður næstu mánuði, hanga líka stórir glerhnettir sem einnig eru hluti af innsetningu Ólafs.

„Það eru í þeim bláir og grænir fletir, en grænu fletirnir eru úr gleri sem ég bjó sjálfur til. Græni liturinn er úr sandi sem kemur undan jöklum. Þessi sandur er raunar frá jöklum á Grænlandi, en þegar jökulsárnar renna undan jöklum kemur þessi sandur. Og blái liturinn er búinn til úr steinefnum sem ég fann í náttúrunni. Svörtu fletirnir í hnöttunum eru eins og heimsálfur, en ekki endilega einhverjar ákveðnar heimsálfur. Áttavitarnir og þessir hnettir vinna vel saman,“ segir hann.

„Svo höfum við raðað borðum á annan hátt og höfum langborð, sem þýðir ekki endilega að þú þurfir að tala við ókunnugt fólk við hliðina á þér, en þetta skapar aðra stemmningu. Og ég gerði einn vegg í sægrænum lit; það er liturinn á hafinu hér fyrir utan síðla dags. Það verður einnig barnahorn fyrir krakkana með eldra verki eftir mig, sem eru mikill fjöldi hvítra lego kubba. Alla fimmtudaga munu tónlistarmenn frá menningarhúsinu Mengi spila og taka upp tónverk sem mun hljóma hér, en það verður bætt í verkið með nýju tónlistarfólki í viku hverri. Í lok verða svo tónleikar þar sem verkið verður spilað með öllu því tónlistarfólki sem kom að gerð þess. En allt þetta er til þess að ýta undir það sem er hér í forgrunni, og það er að fá fólk til þess að koma hingað, vera saman og borða. Fókusinn er að vera með tilraunaeldhús,“ segir Ólafur.

Tími til að deila hugmyndum

„Í stúdíó mínu í Berlín, SOE (Studio Olafur Eliasson), vinna um hundrað manns og við erum oft um 110 í hádegismat. Ég er með eldhústeymi undir stjórn systur minnar Victoríu og hefur hún gert góða hluti, en ég fékk hana loksins til að koma og taka við eldhúsinu. Hlutverk matarins í stúdíóinu er ekki einungis maturinn sjálfur eða gæði hans heldur gefst þarna tækifæri fyrir hin ýmsu teymi að kasta hugmyndum sín á milli. Því stundum er það þannig að þeir sem vinna á stálverkstæðinu tala ekki mikið við fólk sem vinnur á smíðaverkstæðinu, þó að þeir séu kannski að vinna að sama verkinu. Svo eru þarna arkítektar, verkfræðingar, fólk sem sér um samfélagsmiðlana og margt fleira fólk. Eldhúsið, eða hádegishléið, veitir tækifæri til félagslegra samskipta og þar get ég miðlað til þeirra þeim gildum sem ég trúi á og vil viðhalda í stúdíóinu mínu,“ segir Ólafur.

„En það tengist fleira matnum, eins og umhverfismál. Við erum í nánu samstarfi við bændur sem rækta allt lífrænt. Við eldum bara grænmetismat og erum mjög virk í að hugsa um nýtingu matarins. Ég get ekki sagt að eldhúsið sé beinlínis tilraun til listar en við gerum margar tilraunir. Ég gerði kokkabók með uppskriftum úr SOE eldhúsinu og það stendur til að gera framhaldsbók með uppskriftum úr þessu eldhúsi hér,“ segir hann og er spenntur fyrir þessu nýja verkefni hér á landi.

„Fyrst og fremst er hér áhersla lögð á gæði matarins, rýmið og listina. Svo verða líka ný verk í stúdíói mínu hér á efri hæð sem fólk getur skoðað eftir að það hefur borðað.“

Töfrandi birta yfir Snæfellsjökli

Ólafur á margar minningar frá Íslandi sem barn og hafa þær haft áhrif á list hans.

„Ég man þegar ég lenti á Íslandi sem barn, og það er enn fast í mér, að þegar ég lendi í Keflavík finnst mér alltaf að ég horfi suður til Reykjavíkur. Einhvern veginn fannst mér þetta vera öfugt við það sem það er og það situr enn í mér. Það er svo skrítið að þegar maður keyrir frá Keflavík og horfir til vinstri út á haf er maður að horfa í norður,“ segir Ólafur og rifjar upp stundir heima hjá ömmu og afa.

„Þegar ég var barn eyddi ég miklum tíma hjá afa og ömmu sem bjuggu uppi á holtinu í Hafnarfirði, sem var á þeim tíma útjaðar borgarinnar. Oft horfðum við út um gluggann á sólina setjast bak við Snæfellsjökul, í norðri. Og þá fannst mér ég alltaf vera horfa í suður, í átt til Danmerkur, þar sem móðir mín og faðir bjuggu á þeim tíma,“ segir Ólafur og útskýrir að þarna kviknaði einnig vitund hans um ljós og birtu.

„Þetta er kannski ekki mikilvægt atriði en ástæðan fyrir því að ég tók svona vel eftir birtunni, sem síðar í lífinu átti eftir að leika svo stórt hlutverk í list minni, er að þegar ég var um sex ára gamall var olíukrísa í heiminum sem hafði þau áhrif á Íslandi að það var lokað fyrir rafmagn á vissum tímum dags. Það var hljóð úr lúðri sem glumdi um bæinn og svo var rafmagnið tekið af. Þegar ég var lítill fannst mér þetta mjög spennandi; þetta rafmagnsleysi. Þá var eina ljósið birtan að utan og við fórum út í glugga og horfðum á sólina setjast yfir Snæfellsjökul. Maður sá jökulinn dökkna með baklýsingu sólarinnar. Það var mjög töfrandi, þessi ljósaskipti og bláu litirnir í himninum og þessi stemmning sem myndaðist í þessari ótrúlegri birtu. Ég á þessa minningu úr æsku sem er sveipuð töfrum, þegar fjölskyldan safnaðist saman fyrir framan gluggann við kertaljós og horfði á sólarlagið. Ef áhugi minn á ljósi á sér einhverjar rætur eru þær þarna, en þetta er fyrsta minning mín að einhverju sem hefur með birtu að gera,“ segir Ólafur.

Að skynja landið og sjálfsmyndina

Er þessi áhugi á áttum líka kannski uppruninn frá þessum tíma?

„Já, af því ég var svo ringlaður í áttunum. En í dag hef ég meiri áhuga á því hvernig við skynjum rýmið sem við erum í. Hvenær er rými opinbert og hvenær ekki? Og hvernig á að skynja borgina sína og umhverfið sitt í stóra samhenginu, ekki bara að skynja sína litlu götu? Hvernig skynjum við landið okkar og sjálfsmynd? Þetta hefur að gera með að finna áttirnar eða finna mína leið í öllu þessu. Ísland er alveg einstakt því fyrir Íslendingum er það alveg á kristaltæru að þeir eru Íslendingar. En hvað mig varðar, þá hef ég búið í 23 ár í Þýskalandi en mér finnst ég tilheyra Íslandi. Mér finnst ég líka tilheyra Danmörku, og líka Þýskalandi. Þannig að sjálfsmynd mín er sambland af því hverju ég tilheyri. Ég hef ferðast svo mikið um Bandaríkin að ég verð að segja að það hefur haft mikil áhrif á mig, Trump eða ekki. Eins hafa ferðir til Afríku kennt mér svo margt. Þannig að þegar ég hugsa um sjálfsmynd hugsa ég hvernig ég geti sameinað allar þessar sögur í lífinu og þegar ég hugsa um áttavitann er hann tákn um að finna sér sinn stað í tilverunni. Hvaðan við erum að koma og hvert við erum að fara.“