Jokka - Jóhanna G. Birnudóttir og Pétur Guðjónsson á æfingu í Verkmenntaskóla Akureyrar.
Jokka - Jóhanna G. Birnudóttir og Pétur Guðjónsson á æfingu í Verkmenntaskóla Akureyrar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Guðjónsson er allt í senn handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi nýs barnasöngleiks, Gutti & Selma og ævintýrabókin, sem frumsýndur verður á Handverkshátíð Eyjafjarðar næstkomandi fimmtudag. Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is

Pétur Guðjónsson, handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi barnasöngleiksins Gutti & Selma og ævintýrabókin , sem fer á fjalir Tónlistarhússins Laugarborgar í Eyjafirði á fimmtudaginn, kveðst hafa notið dyggilegrar aðstoðar sérdeilis góðra prófarkalesara og álitsgjafa í sköpunarferlinu. Þótt þau séu ekki há í loftinu, aðeins þriggja og sjö ára, tróna nöfn þeirra hæst á huglægum kreditlista afa þeirra. „Þegar ég var að passa og svæfa á kvöldin notaði ég tækifærið og las handritið fyrir þau til að sjá viðbrögðin og fá álit,“ rifjar Pétur upp. „Mjög gagnlegt og skemmtilegt,“ áréttir hann og hefur augljóslega fengið jákvæðar undirtektir og hvatningu frá barnabörnunum því æfingar hófust í maí og standa yfir nánast daglega um þessar mundir og alveg fram á frumsýningardag.

„Leikritið er 40 mínútna langt og segir frá systkinunum Gutta og Selmu, sem eru 8 og 10 ára. Þau finna ævintýrabók og upp úr henni stökkva frægar sögupersónur á borð við Emil í Kattholti og Línu Langsokk auk langömmu, seiðkonu, trölla og alls konar óvæntra kynjavera. Með hlutverk Gutta fer Eyþór Daði Eyþórsson en Selmu leikur Birgitta Björk Bergsdóttir. Þau eru nánast allan tímann á sviðinu, en fimm leikarar skipta með sér hlutverkum ævintýrapersónanna. Viðvera Erlu Rutar Möller, nýútskrifaðrar leikkonu frá New York, er líka töluverð því hún fer með tvö hlutverk, annars vegar nornar og hins vegar langömmu,“ segir Pétur og bætir við að þrátt fyrir ungan aldur séu Eyþór Daði og Birgitta Björk reyndir leikarar, sem hafi leikið mikið með áhugaleikhúsum á Akureyri og svæðinu í kring.

Hugmyndin kviknaði á fjöllum

Sjálfur er Pétur viðburðarstjóri að mennt, starfar sem slíkur í hálfu starfi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, og hefur síðastliðin þrjú ár sótt námskeið í leikstjórn hjá Bandalagi íslenskra leikara. „Ég er eiginlega svona altmúligmaður og plötusnúður líka,“ segir hann brosandi og víkur talinu að tildrögum þess að þau Gutti og Selma stíga á svið í Laugarborg.

„Eftir að ég leikstýrði fjölskylduleikritinu Ávaxtakörfunni hjá Leikfélagi VMA, sem sett var upp í Menningarhúsinu Hofi í ársbyrjum, hafði framkvæmdastjóri Handverkshátíðar Eyjafjarðar samband og spurði hvort ég vildi setja upp leikrit á hátíðinni. Ég svaraði játandi, enda höfðu gríðarlegar vinsældir Ávaxtakörfunnar vakið hjá mér mikinn áhuga á að halda áfram að miðla einhverju til barnanna gegnum leikhúsið. Síðan fór ég í fjallgöngu í páskafríinu með konunni minni og þá bara varð þetta allt saman til í höfðinu á mér; Gutti, Selma og ævintýri þeirra systkina.“

Leikritið er samstarfsverkefni Handverkshátíðarinnar og hóps sem kallar sig Draumaleikhúsið og samanstendur af hátt í tuttugu manns. „Sumir sem komu að uppsetningu Ávaxtakörfunnar hafa verið að grípa í þetta verkefni með mér. Fremst í flokki er Jóhanna Birnudóttir, eða Jokka eins og hún er alltaf kölluð og rak hér götuleikhús árum saman, en hún var sú fyrsta sem ég sýndi handritið og bað um að aðstoða mig við að setja leikritið upp. Því næst hóaði ég í ýmsa reynslubolta, til dæmis mjög flinka saumakonu. Í hópnum er enginn einn sem ræður heldur samráð um alla skapaða hluti; búninga, sviðsmynd og heildarútlit.

Sviðsmyndin afar látlaus en um leið býsna snjöll. Hún er svo til eingöngu byggð á lýsingu, sýningartjaldi, tveimur krossviðarplötum og myndbandi. „Um leið og sýningartjaldið er dregið frá blasa töfrarnir við sem risastór opin bók. Ekki líður svo á löngu þar til alls konar ævintýrapersónur hoppa út af blaðsíðunum þar sem þær hitta fyrir þau Gutta og Selmu.“

Tónlistin í verkinu er þekkt ábreiðutónlist og lög sem Pétur telur næsta víst að flest börn þekki og geti sönglað með, til dæmis „Guttavísur“, „Lagið um það sem er bannað“, „Ég langömmu á“ og „Skýin“. Spurður hvort í söngleiknum sé boðskapur til barnanna segir Pétur hann ósköp einfaldan og auðskilin: „Maður á ekki að vera óþægur.“

Ætti ekki að verða meint af

Trúlega er það hægara sagt en gert fyrir suma, sérstaklega gutta eins og Gutta, sem grettir sig og bara hlær þegar Selma, stóra systir hans, þarf að vanda um fyrir honum. „Krakkarnir lenda í alls konar ævintýrum og komast oft í klandur. Þótt í verkinu séu kannski svolítið ógnvænleg tröll og kynjaverur tel ég að börnum allt niður í þriggja ára ætti ekki að verða meint af. Börnin vilja vissulega sinn skammt af spennu en hún má þó ekki verða of mikil.“

Pétur er enginn nýgræðingur í að semja og setja á svið leikrit. Þau Jokka hafa unnið náið saman á undanförnum árum. Þau sömdu og settu upp barnasöngleikinn Tumi tímalaus í Álfheimum árið 2014 og áður þrjú verk, „meira svona fullorðins“ eins og hann segir: Bernaise, já takk og franskar á milli , grínsöngleik um Akureyringa árið 2012 og ári síðar Gúgglaðu það bara , söngfarsa um samskiptamáta ungs fólks. Þá er ótalið örleikritið Mér er fokking drullusama , sem fjallaði um sjálfsvíg og sýnt var í Verkmenntaskólanum á Akureyri í fyrra og síðan notað þar sem kennsluefni í lífsleikni.

Átta sýningar eru fyrirhugaðar á söngleiknum Gutti & Selma og ævintýrabókin , tvær á dag kl. 13 og 15 frá fimmtudegi 9. ágúst til sunnudags 12. ágúst. Höfundur Gutta & Selmu er ákveðinn í að skrifa þau inn í framtíðina og fara með systkinin út um allt land. „Þau munu lifa í fleiri verkum,“ segir hann.