Heitur sjór Jafnvel fiskarnir eru ekki hólpnir fyrir hitabylgjunni. Hér liggur dauður fiskur í höfninni Greetsiel í norðvesturhluta Þýskalands. Fjöldi fiska hefur drepist í hitanum vegna aukins saltmagns í sjónum. Þýsk yfirvöld hafa safnað tæpum fimm tonnum af dauðum fiski í ríkjandi veðurfari.
Heitur sjór Jafnvel fiskarnir eru ekki hólpnir fyrir hitabylgjunni. Hér liggur dauður fiskur í höfninni Greetsiel í norðvesturhluta Þýskalands. Fjöldi fiska hefur drepist í hitanum vegna aukins saltmagns í sjónum. Þýsk yfirvöld hafa safnað tæpum fimm tonnum af dauðum fiski í ríkjandi veðurfari. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Tveir menn hafa látið lífið úr sólsting í hitabylgjunni sem nú geisar um Evrópu. Frá þessu er sagt á fréttavefjum AFP og BBC .

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Tveir menn hafa látið lífið úr sólsting í hitabylgjunni sem nú geisar um Evrópu. Frá þessu er sagt á fréttavefjum AFP og BBC . Hitinn í Evrópu er nú með því mesta sem mælst hefur og hefur náð um 45 gráðum á selsíus þar sem heitast er. Til samanburðar má nefna að mesti hiti sem mælst hefur í Evrópu frá upphafi nam 48 gráðum, í Aþenu í júlí árið 1977.

Bannað að grilla

Veðurstofan Meteoalarm gaf út rauða viðvörun í Portúgal og Badajoz-sýslunni á Spáni vegna hitans og taldi um 40% líkur á því að hitametið frá árinu 1977 yrði slegið.

Mennirnir sem létust á Spáni voru vegavinnumaður á fimmtugsaldri og 78 ára gamall lífeyrisþegi. Við landamæri Spánar og Portúgals er gert ráð fyrir því að hitinn muni nema rúmlega 44 gráðum á selsíus.

Hitinn hafði þegar farið yfir 45 gráður í Alvega, norðan við Lissabon, á fimmtudaginn. Eduardo Cabrita, innanríkisráðherra Portúgals, hefur gefið út stranga viðvörun gegn því að fólk grilli úti eða geri annað sem aukið gæti hættu á gróðureldum. Enn hafa engir alvarlegir villieldar kviknað í Portúgal í hitabylgjunni en slíkar hamfarir eru Portúgölum enn í fersku minni: í júní og október í fyrra kviknuðu mannskæðir gróðureldar í landinu sem gengu samtals að rúmlega hundrað manns dauðum. Portúgalskar veðurstofur búast við því að hitabylgjan sem nú stendur yfir nái hámarki í dag.

Ókeypis vatnsflöskur í Róm

Lögreglumenn í Róm, sem þegar skortir ekki vatnsfonta og gosbrunna, eru farnir að rétta ferðamönnum ókeypis vatnsflöskur til þess að fyrirbyggja slys vegna ofþornunar. Ísneysla hefur rokið upp á Ítalíu á sama tíma og mjólkurframleiðsla hefur hrapað niður vegna hitans, sem hrjáir kýrnar líkt og alla aðra.

Sumir íbúar Evrópu hafa farið sér að voða í leit að kælingu. Um 250 manns hafa drukknað í Póllandi frá byrjun aprílmánuðar er þeir stungu sér til sunds til að sleppa við hitann, þar af 75 í júlí. Pólska lögreglan segir að aðallega sé um að ræða ölvaða Pólverja sem stungu sér til sunds á eftirlitslausum stöðum.

Ef einhver hefur grætt á hitabylgjunni hafa það líklega verið áhugamenn um heimsstyrjaldirnar. Í Saxlandi-Anhalt í Þýskalandi lækkaði vatnsborð í Saxelfi svo mjög að lögreglan uppgötvaði handsprengjur og skotfæri frá tíma seinni heimsstyrjaldarinnar á botni hennar.