Gamall varðturn við innsiglinguna að höllinni í Múskat.
Gamall varðturn við innsiglinguna að höllinni í Múskat.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óman er töluvert frábrugðið furstadæminu Dúbaí þar sem glæsileg háhýsi gnæfa yfir allt og lifnaðarhættirnir eru ríkmannlegir.

Óman er töluvert frábrugðið furstadæminu Dúbaí þar sem glæsileg háhýsi gnæfa yfir allt og lifnaðarhættirnir eru ríkmannlegir. Karólína Einarsdóttir mælir með því að þeir sem leggja leið sína til Dúbaí heimsæki Óman í leiðinni, þar sé náttúrufegurðin mikil og Ómanar góðir gestgjafar. Guðrún Óla Jónsdóttir gudruno@mbl.is

Dúbaí er eitt sjö furstadæmanna sem heyra undir Sameinuðu arabísku furstadæmin. Þar hefur Karólína Einarsdóttir verið búsett ásamt fjölskyldu sinni síðastliðin fjögur ár. Fjölskyldan er dugleg að ferðast og hefur meðal annars farið þrisvar til Óman, sem Karólína mælir eindregið með fyrir þá sem leggja leið sína til Dúbaí. „Þangað er mjög gaman að koma; sérstaklega ef fólk langar að sjá eitthvað öðruvísi og frábrugðið háhýsunum, marmara og skínandi gulli í Dúbaí.“

Munur á norðri og suðri

„Frá Dúbaí er þetta ekki nema um fimm tíma akstur, hvort heldur sem er til Múskat í Suður-Óman, eða Musandam í norðri. Og akstursleiðin er mjög falleg. Þegar farið er norður til Musandam er keyrt meðfram sjónum, upp yfir fjall og svo kemur maður niður hinum megin í Khasab.“ Hún segir ágætt að gera ráð fyrir um það bil klukkutíma stoppi við landamærin þar sem þurfi að stimpla vegabréfin og greiða smávegis gjald.

Karólína hefur bæði komið til Norður- og Suður-Óman og segir töluverðan mun á þessum tveimur stöðum. „Í norðurhluta Óman er mikil og falleg náttúra en það er mjög mikið fjalllendi og mikið grýtt. Það er ekki mikið grænt þarna. Þar eru pínulítil þorp og einstök hús niðri við sjóinn þar sem fólk býr ennþá.“ Karólína segir að ennþá finnist rafmagnslaus þorp þarna og þetta geti því verið frekar frumstætt.

Suður-Óman segir hún hafa verið töluvert öðruvísi. „Þar var svolítið öðruvísi menning, annars konar hús og heimili. Mér heyrðist líka á heimamönnum að þeim þætti mikill munur þarna á, kannski svolítið eins og Íslendingar tala í gríni um muninn á Reykvíkingum og Akureyringum,“ segir Karólína og hlær. „En í suðurhlutanum eru ógrynnin öll af söfnum og menn hafa greinilega staðið sig mjög vel í að varðveita sögu landsins.“

Í Norður-Óman sigldi fjölskyldan meðal annars á bát, svokölluðum Dhow eins og hann heitir á arabísku. „Þetta eru gamlir bátar sem voru smíðaðir og meðal annars notaðir til að sigla frá arabísku löndunum til Indlands og til baka. Við leigðum okkur Dhow og sigldum eftir firðinum á milli fjallanna en það er kallað hinir norsku firðir Ómans. Þetta eru djúpir firðir þar sem er hægt að sjá höfrunga, hákarla og síðan er hægt að kafa og sjá alls konar skrautlega fiska. Það er hægt að gista á bátnum, úti undir berum himni, en í eitt skiptið gistum við í tjaldi á ströndinni með vinafólki og það var skemmtileg upplifun,“ segir Karólína. Skipverjarnir hafi eldað ómanskan mat um borð og frætt þau um land og þjóð og sína sögu.

Í borginni Múskat í Suður-Óman segir Karólína mikið um varðturna sem hafa verið varðveittir. „Þarna var mikið um sjóorrustur þannig að heimamönnum var mikið í mun að vernda svæðið. Það skipti miklu máli hver átti rétt á hafinu þarna á milli Írans og Óman. Þannig er það enn þann dag í dag og þarna á milli sigla allir bátar sem þarf að fara með inn í Persaflóa. Ómanar hafa alla tíð siglt mikið og eru miklir sérfræðingar í siglingafræðum.“

Karólína segir að hægt sé að fara í margar skipulagðar ferðir, sérstaklega í kringum Múskat. Hún segir Ómana mjög gestrisna og taka vel á móti ferðamönnum. Þá sé vinsælt að fara á útimarkaði og prútta og Karólína hvetur Íslendinga til að vera ófeimna við það, þótt það sé eitthvað sem við eigum ekki að venjast frá Íslandi. „Það er ætlast til að maður prútti. Þeim finnst það bara gaman og þetta er hefðin þarna. Ef maður segir já við fyrstu upphæðinni sem þeir bjóða þá er því auðvitað yfirleitt tekið en þeir verða kannski frekar hissa,“ segir Karólína og hlær. „En það er sko alveg á hreinu að þeir eru ekki að selja manni neitt nema þeir séu að græða eitthvað á því þannig að maður þarf ekkert að hafa samviskubit og líða illa yfir því að prútta við þá.“

Þegar blaðamaður spyr hvað sé eftirminnilegast frá Óman, segir Karólína það vera náttúrufegurðina í norðurhluta landsins. „Náttúran og fegurðin í þessum grýttu fjöllum og nálægðin við náttúruna. Það var líka gaman að sjá allt aðra lifnaðarhætti en við erum vön.“

Að lokum leikur blaðamanni forvitni á því hvort ætlast sé til að ferðamenn klæði sig á sérstakan hátt þegar ferðast er á þessum slóðum. Karólína segir svo ekki vera, málið sé bara að klæða sig af virðingu við heimamenn. Það tíðkist ekki að ganga um á hlýrabol eða í mjög stuttu pilsi eða stuttbuxum. „Ég mæli með því að fólk sé í bol sem hylur axlirnar og konur ættu ekki að vera í pilsi sem er fyrir ofan hné. Karlmenn ættu að gera slíkt hið sama, það er að segja ekki vera í hlýrabol og passa að stuttbuxurnar séu ekki mjög stuttar. Á ströndum og við sundlaugar er að sjálfsögðu allt í lagi að vera í bikiníi eða sundbol og karlmenn mega vera berir að ofan og í speedo sundskýlu þess vegna, ef þeir vilja.“