Árás Glerbrot þekja gólf moskunnar.
Árás Glerbrot þekja gólf moskunnar.
Að minnsta kosti 29 manns létu lífið í árás á mosku sjíamúslíma í austurhluta Afganistan í gær. Frá þessu er sagt á fréttavef AFP . Auk hinna látnu særðust rúmlega 80 í árásinni.

Að minnsta kosti 29 manns létu lífið í árás á mosku sjíamúslíma í austurhluta Afganistan í gær. Frá þessu er sagt á fréttavef AFP . Auk hinna látnu særðust rúmlega 80 í árásinni.

Árásin var gerð í borginni Gardez í héraðinu Paktia, sunnan við höfuðborgina Kabúl. Árásármennirnir voru klæddir í búrkur og skutu fyrst á öryggisverði moskunnar áður en þeir sprengdu sjálfa sig í loft upp.

Talibanar hafa neitað sök í málinu. Samtökin Ríki íslams hafa áður lýst árásum á tilbeiðslustaði sjíamúslíma í Afganistan á hendur sér en þau hafa ekki gefið út yfirlýsingu um þessa árás.

Sjíamúslímar eru í minnihluta í Afganistan, sem er aðallega byggt súnnímúslímum. Átök milli trúarhópanna hafa lengst af ekki verið algeng í landinu en árásir á sjíamúslíma hafa færst í aukana síðustu árin.

Síðustu mánuðir hafa verið sérstaklega átakasamir í landinu. Ríki íslams og talíbanar hafa gert æ fleiri árásir á öryggisstöðvar og opinberar byggingar. Auk þess berjast vígahóparnir hver við annan.

Átökin langvinnu í Afganistan bitna jafnan helst á óbreyttum borgurum. Mörg mannskæð hryðjuverk hafa þegar verið framin í landinu í þessari viku. Á þriðjudaginn létu að minnsta kosti 15 manns lífið í árás Ríkis íslams á flóttamannaskrifstofu í Jalalabad og 11 létust í sprengingu á þjóðvegi í vesturhluta landsins. Alls hafa 1692 almennir borgarar látist í Afganistan á þessu ári samkvæmt talningu Sameinuðu þjóðanna. Þetta er mesti fjöldi dauðsfalla síðan talningar hófust árið 2009.