[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Landeigendur með aðgang að heitu vatni, eiga nú kost á því að hafa tekjur af raforkuframleiðslu á landi sínu, með tilstilli sænska tæknifyrirtækisins Climeon og íslensks samstarfsfyrirtækis þeirra Varmaorku.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Landeigendur með aðgang að heitu vatni, eiga nú kost á því að hafa tekjur af raforkuframleiðslu á landi sínu, með tilstilli sænska tæknifyrirtækisins Climeon og íslensks samstarfsfyrirtækis þeirra Varmaorku.

Climeon opnaði á dögunum skrifstofu hér á landi til að styðja við útbreiðslu tækninnar, sem þeir segja einstaka í sinni röð, og vinni raforku úr jarðvarmaorku á lághitasvæðum. Fyrsti þjónustumaðurinn verður ráðinn með haustinu.

Pöntun fyrir 8 milljarða

Thomas Öström, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að Varmaorka hafi nú þegar lagt inn pöntun á 197 einingum frá fyrirtækinu fyrir andvirði 65 milljóna evra, eða um 8 milljarða íslenskra króna. Búið er að afhenda fjórar slíkar einingar sem staðsettar verða nálægt Flúðum. Hver stöð getur framleitt um 150 Kw af raforku. Öström hvetur alla landeigendur til að skoða málið vandlega, en til að vita nákvæmlega hve miklar tekjur hægt er að hafa af orkustöðvunum sé nóg að vita hve mikið vatn er í boði, og hve heitt það er. Einingarnar 197 framleiði samtals um 30 Mw.

„Það hafa margir gert tilraunir í gegnum tíðina með að framleiða raforku úr lághita með hagkvæmum hætti, en enginn náð sama árangri og við. Við byrjuðum að framleiða raforku úr affallsvatni og hita úr skipaiðnaðinum, álverksmiðjum, sementsverksmiðjum og stálverksmiðjum, en eðlilegt næsta skref var að fara til landa þar sem er mikill jarðhiti, eins og á Íslandi. Við höfum einnig opnað starfsstöð í Japan þar sem svipaðar aðstæður eru fyrir hendi,“ segir Öström.

Hann segir að tæknin sé þannig að allir græði á henni. Landeigendur fái leigu fyrir að vera með einingarnar á landi sínu, orkuna sé hægt að nýta annaðhvort af landeigendum sjálfum, eða selja hana annað, og náttúran græði þar sem verið sé að framleiða hreina raforku með umhverfisvænum og endurnýjanlegum hætti.

Tveggja rúmmetra einingar

Öström vísar í mikla umræðu sem verið hefur hér á landi um aukna orkuþörf í framtíðinni, meðal annars til orkufrekra gagnavera. „Innan skamms munum við sjá orkuverin okkar rísa um allt Ísland. Einingarnar eru tveir rúmmetrar að stærð, staðlaðar og hægt er að raða þeim mörgum saman, allt eftir þörfinni á hverjum stað. Núverandi áætlanir Varmaorku eru að setja upp 17-18 lítil orkuver sem framleiða raforku allan sólarhringinn.“

Um 70 manns vinna hjá Climeon í Svíþjóð. Félagið er skráð á Nasdaq First North markaðinn, og hluthafar nálægt 10 þúsund. „Pantanabókin okkar stendur núna í 80 milljónum evra, og við erum nýbyrjuð að fjöldaframleiða. Auk þess að vera komin með starfsemi hér og í Japan, þá erum við einnig í Þýskalandi og Kanada.“

Öström segir að fyrirtækið sé mjög metnaðarfullt, og ætli sér að vera í fararbroddi í umhverfismálum í framtíðinni.

Vannýtt auðlind
» Hiti er ein vannýttasta auðlind jarðar. 50% fara til spillis.
» Umhverfisvæn framleiðsla.
» Athafnamaðurinn Richard Branson mun nota tæknina í Virgin Voyages skemmtiferðaskipum sínum sem nú eru í smíðum.