Þau ólust upp í torfkofum og verbúðum en arfleifð þeirra er Ísland nútímans

Afar og ömmur minnar kynslóðar voru í langflestum tilfellum fátækt fólk til sjávar og sveita. Þegar ég fór í fyrsta sinn í sveit, í Flókadal í Borgarfirði sumarið 1950, var enn búið í þremur torfbæjum í þeim dal. Einum og hálfum áratug síðar er tæpast ofsagt að leifar 19. aldar hafi blasað við í Skötufirði við Ísafjarðardjúp. Enginn vegur og mjólkurbrúsar fluttir á báti yfir í skip.

Þeim mun merkilegra er – sem ég fór að hugsa um eftir samtal við Svein Einarsson, fyrrum Þjóðleikhússtjóra og áður leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur í vor – að það var þessi sama kynslóð sem hóf endurreisn menningarlífs á Íslandi undir lok 19. aldar, eftir blómaskeið fyrri alda.

Þegar við horfum yfir farinn veg í þessum efnum er nánast ótrúlegt hvað gerzt hefur á þessari fámennu eyju síðustu rúm hundrað ár. Það er ekki síðra afrek en uppbygging íslenzks atvinnulífs með nýtingu auðlinda lands og sjávar.

Undir lok 19. aldar spratt hér upp blómleg leiklistarstarfsemi, sem leiddi til stofnunar Leikfélags Reykjavíkur í janúar 1897, sem enn starfar. Þar var mikill metnaður á ferð og nánast ótrúlegt hvað því fólki hefur á þeim tíma tekizt að gera mikið úr nánast engu. En það er líka ljóst að blómlegt leiklistarstarf hefur ekki bara orðið til í Reykjavík þeirra tíma, því að um land allt urðu til leikfélög áhugafólks. Gamli bóndinn í minni sveit var einn helzti áhugaleikari í sinni heimabyggð og dóttir hans varð leikkona við Þjóðleikhúsið.

Rúmum áratug áður en Leikfélagið var stofnað fæddist lítill drengur í einangraðri byggð í Vestur-Skaftafellssýslu. Nafn hans og verk munu lifa svo lengi sem Ísland verður byggt. Hann hét Jóhannes Sveinsson Kjarval. Hvernig tókst honum að verða það sem hann varð við þær aðstæður sem hann bjó við í æsku og síðar í Borgarfirði eystra?

Hann var ekki einn á ferð. Það er með ólíkindum hvað fyrsta kynslóð íslenzkra myndlistarmanna hefur skilið eftir sig af verkum sem ekki munu gleymast þótt dægurstjörnur samtímans á mörgum sviðum verði týndar og tröllum gefnar.

Hér varð snemma til athyglisverður áhugi á tónlist og með sama hætti og myndlistarmennirnir komu fram tónskáld sem náðu með ótrúlegum hætti að endurspegla náttúru landsins og íslenzka þjóðarsál í verkum sínum. En því skal ekki gleymt að við stöndum í þakkarskuld við landflótta Gyðinga, sem hingað leituðu undan hörmungum styrjaldarinnar í Evrópu, vegna þáttar þeirra í uppbyggingu tónlistarlífs á Íslandi.

Við sem horfðum hugfangin á skólasystur okkar, Bryndísi Schram – sem varð áttræð snemma í júlí – sýna listdans á sviði Þjóðleikhússins á menntaskólaárum okkar gerðum okkur enga grein fyrir því að hálfri öld áður hafði listelskt fólk hafizt handa við að kynna þá listgrein á Íslandi.

Stofnun Háskóla Íslands, áður en þjóðin fékk fullveldi, sýnir þann mikla menningarlega metnað sem var til staðar hjá fólkinu sem hafði alizt upp í torfkofum og í hrörlegum verbúðum. Kynslóð barna þeirra og barnabarna skyldi búa við aðrar aðstæður en það sjálft. Fæstir foreldrar elztu núlifandi kynslóðar Íslendinga höfðu efni á að afla sér þeirrar menntunar sem nú þykir sjálfsögð.

Hápunktur þessarar merkilegu sögu eru auðvitað Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness. Í þeim fólst viðurkenning annarra þjóða á að þetta fámenna og áður fátæka samfélag eyjarskeggja í Norður-Atlantshafi ætti sér verðugan sess meðal svokallaðra menningarþjóða.

Saga bókmenningar okkar á síðustu rúmum hundrað árum er kapítuli út af fyrir sig. Það hefur verið gefið út ótrúlega mikið af bókum á Íslandi á þessu tímabili. Bæði skáldsögur og ljóð en ekki síður bækur um sögu og önnur fræðileg efni.

Í þeim kafla menningarsögu okkar er hlutur einkaframtaksins mikill. Það eru lítil og meðalstór bókaforlög, sem byggð hafa verið upp af áhugamönnum, sem eru undirstaðan að því mikla menningarstarfi sem þar hefur verið unnið. Það er svo augljóst, bæði vegna smæðar markaðar og af öðrum ástæðum, að gróðavonin hefur ekki verið hvatinn sem hefur rekið þessa menn áfram. Þar er annars konar metnaður á ferð.

Allt er þetta til en kannski spurning hvernig hægt er að veita fólki yfirsýn með aðgengilegum hætti yfir þá miklu arfleifð sem hér er á ferð.

Það sem hér hefur verið rakið er hið mikla menningarlega afrek afa og ömmu okkar allra, fólksins sem fæddist í torfkofunum eða verbúðunum. Þeirri sögu eigum við ekki að gleyma og megum ekki gleyma.

Við þurfum að búa svo um hnútana að hún geymist og færist á milli kynslóða.

Þessi mikla saga er ein af grundvallarástæðum þess að við getum hvorki leyft okkar að gera Ísland að smáhrepp í 500 milljón manna ríkjabandalagi, sem reynt er að byggja upp í Evrópu, en flest bendir nú til að mistakist, og við getum heldur ekki látið það eftir okkur að selja útlendingum þetta land í smáskömmtum hér og þar og standa svo skyndilega frammi fyrir gerðum hlut, þótt miklir peningar séu í boði.

Vilja menn kannski selja fiskimiðin?!

Nú er reynt að halda því að fólki að það sé einhver „þjóðrembingur“ fólginn í því að við séum stolt af þessari bráðum 1.200 ára sögu.

Það er mikill misskilningur. Við eigum þvert á móti að leggja áherzlu á að halda henni til haga og það gerum við ekki sízt með því að varðveita tungu okkar og menningu.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is