Sigur Stuðningsmenn ZANU fagna sigri Emmersons Mnangagwa í gær.
Sigur Stuðningsmenn ZANU fagna sigri Emmersons Mnangagwa í gær. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Tilkynnt var í gærmorgun að Emmerson Mnangagwa, sitjandi forseti Simbabve og frambjóðandi stjórnarflokksins ZANU-PF, hefði unnið sigur í forsetakosningum sem haldnar voru í byrjun vikunnar.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Tilkynnt var í gærmorgun að Emmerson Mnangagwa, sitjandi forseti Simbabve og frambjóðandi stjórnarflokksins ZANU-PF, hefði unnið sigur í forsetakosningum sem haldnar voru í byrjun vikunnar. Frá þessu er sagt á fréttavef AFP . Samkvæmt talningu atkvæða hlaut Mnangagwa 50,8 prósent atkvæða en Nelson Chamisa, forsetaefni Hreyfingarinnar fyrir lýðræðisumbótum (MDC), 44,3. Þessar tölur rétt nægja Mnangagwa til að forðast aðra umferð sem haldin hefði verið ef hann hefði ekki hlotið meirihluta atkvæða. Mnangagwa tók við völdum eftir valdarán gegn Robert Mugabe í fyrra.

Umdeild kosningaúrslit

Ekki eru þó allir sáttir við niðurstöðuna og stjórnarandstaðan, sem hafði verið sigurviss í aðdraganda kosningarinnar, hefur kallað eftir því að landsmenn hafni „fölskum“ kosningaúrslitum. „Ógagnsæið, sannleiksskorturinn, siðleysið og óskammfeilnin er fyrir neðan allar hellur,“ skrifaði Chamisa á Twitter-síðu sinni. Stjórnarandstaðan hafði þegar vænt stjórnvöld um kosningasvindl fyrir birtingu úrslitanna úr forsetakjörinu. Í mótmælum sem brotist höfðu út í höfuðborginni Harare vegna tafar á birtingu úrslitanna á fimmtudaginn drápu öryggissveitir stjórnarhersins sex manns.

Mnangagwa kallaði kosningaúrslitin „nýtt upphaf“ fyrir Simbabve. „Þótt við séum ósammála á kjörstað erum við sameinuð í draumum okkar,“ skrifaði hann á Twitter.