Sérfræðingar segja að besta lykt sem hugsast getur sé líkamslykt þeirra sem eru manni kærir. Þessu samsinnir Víkverji, allavega á meðan hreinlætis er gætt. Óskandi væri að fleiri meðtækju þennan sannleik.

Sérfræðingar segja að besta lykt sem hugsast getur sé líkamslykt þeirra sem eru manni kærir. Þessu samsinnir Víkverji, allavega á meðan hreinlætis er gætt. Óskandi væri að fleiri meðtækju þennan sannleik.

Takmörkum er háð hversu vel dauðlegir menn geta ilmað. Ískyggilega margir hafa tröllatrú á gerviefnum sem eiga að ilma svo vel að þau komi í stað fyrir sturtu. Áhrifin eru oftast öfug. Svona umvandanir ættu kannski betur heima í unglingablaði en þó sorglegt sé þarf að minna suma fullorðna (karl)menn á að baða sig.

Yfirleitt gera menn þetta í réttri röð: fara í sturtu og úða svo á sig „ilm“vatninu, sem sjaldnast ber nafn með rentu. Þetta skal gert í einrúmi, án þess að stífla skilningarvit saklausra óbreyttra borgara. Víkverja greyinu er oft misþyrmt af vöðvastrákum í ræktarklefanum þegar þeir breyta honum í gasklefa með James Bond-rakspíranum sínum.

Betra, eða skárra, væri ef vöðvastrákarnir tækju sig til og veipuðu inni í klefanum. Gufa sú er allavega ekki svo sterk og yfirþyrmandi að Víkverji þurfi að hrökklast út í horn með handklæði fyrir vitunum. Þeir gætu allt eins farið að reykja inni eins og í gamla daga. En það færi ekki vel á því í líkamsræktarstöð.

Baggið, eins og vöðvastrákarnir kalla það, íslenskt neftóbak, er að vísu aufúsugestur í íþróttahreyfingunni. Enda byrjuðu menn að taka í vörina í skíðafélögunum norsku, að Víkverja minnir. Sá ósiður hefur þann kost að hann er ekki hættulegur öðrum en sjálfum neytandanum, ólíkt ilmvatni og reykingum.

Alltaf endar Víkverji á að messa yfir áhlýðendum sínum. Þeir hljóta að fara að mótmæla með hrífum fyrir utan húsið hans, enda upp til hópa hreinlátt fólk. Ætli Víkverji sé ekki bara ónæmur fyrir dauninum sem leggur af honum sjálfum.