Viðvík er lítill en notalegur veitingastaður sem rúmar 30-40 manns.
Viðvík er lítill en notalegur veitingastaður sem rúmar 30-40 manns.
Viðvík er lítill en notalegur fjölskyldurekinn veitingastaður sem opnaði fyrir rúmlega ári. Þar er gestum boðinn gómsætur matur með glæsilegu útsýni. Arnar Tómas Valgeirsson arnart@mbl.is

Á Hellissandi er að finna fjölskyldurekna veitingastaðinn Viðvík, sem hélt nýlega upp á eins árs afmæli. „Maturinn sem við bjóðum upp á er í fínni kantinum og af blönduðum uppruna, þar á meðal skandinavískum, frönskum og asískum.“ segir Gils Þorri Sigurðsson, yfirmatreiðslumaður Viðvíkur, en hann er eigandi ásamt bróður sínum Magnúsi Darra Sigurðssyni og mökum þeirra, Anítu Rut Aðalbjargardóttur og Helgu Jóhannsdóttur.

„Við einblínum á ferskt og gott hráefni í bland við einfaldar hugmyndir í vandaðri útfærslu. Við fáum síðan frábært hráefni frá nærliggjandi stöðum, aðallega fisk, skelfisk og þess háttar.“

Spurður um staðsetninguna segist Gils telja hana fullkomna. „Ég ólst upp á svæðinu svo að fyrir mitt leyti er staðsetningin upp á tíu, og útsýnið líka. Kúnnahópurinn er skemmtileg blanda af heimamönnum og ferðafólki, en það er árstíðabundið hvor hópurinn er stærri.

Ferðamennirnir eru mjög margir á sumrin, en heimamenn eru líka duglegir að fá sér að borða, þá oftast um helgar,“ segir Gils sem deilir tveimur uppskriftum með lesendum.