[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Syndaflóð er sjötta bók Kristina Ohlsson um lögreglumennina Fredrika Bergman og Alex Recht og sú sjötta sem kemur út á íslensku. Að þessu sinni glíma þau Bergman og Recht við þrjú mál sem tengjast og gamlar syndir leita upp á yfirborðið.

Syndaflóð er sjötta bók Kristina Ohlsson um lögreglumennina Fredrika Bergman og Alex Recht og sú sjötta sem kemur út á íslensku. Að þessu sinni glíma þau Bergman og Recht við þrjú mál sem tengjast og gamlar syndir leita upp á yfirborðið. Það er ekki til að auðvelda rannsóknina að morðinginn, sem virðist standa þeim óþægilega nærri, er sífellt að senda þeim vísbendingar og eins að Bergman stendur á erfiðum krossgötum og líf hennar verður ekki samt á eftir. Nanna B. Þórsdóttir þýddi bókina, JPV gefur út.

Sumar í Litla bakaríinu við Strandgötu eftir Jenny Colgan er sjálfstætt framhald Litla bakarísins við Strandgötu sem kom út á síðasta ári og sat ofarlega á metsölulistum fram eftir sumri. Í bókinni segir frá Polly Waterford sem býr í vita í smábænum Mount Polbearne á Suðvestur-Englandi ásamt unnusta sínum og lundanum Neil. Hún er í draumastarfinu í Litla bakaríinu við sjávarsíðuna, en þegar eigendur bakarísins heimta meiri hagnað á kostnað gæða þarf Polly að taka til sinna ráða og hugsa líf sitt upp á nýtt. Angústúra gefur út, Ingunn Snædal þýddi.

Fyrsta skáldsaga franska rithöfundarins Julien Sandrel, Undraherbergið, varð metsölubók í heimalandi hans og víða um heim. Í bókinni segir af Thelmu, einstæðri móður tólf ára drengs, Louis, sem er önnum kafin og upptekin af starfi sínu. Hversdagurinn er sífelld glíma við að láta allt ganga upp en þegar hún stendur óforvarandis frammi fyrir óbærilegum aðstæðum gefur það sem Louis hefur skrifað í stílabók sína henni leið til að takast á við þær. Ólöf Pétursdóttir þýddi, JPV gefur út.