Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson mun klæðast treyju númer 10 hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton á leiktíðinni sem er að hefjast en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í gær.

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson mun klæðast treyju númer 10 hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton á leiktíðinni sem er að hefjast en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í gær.

Gylfi Þór kom til Everton síðasta sumar frá Swansea en enska félagið borgaði 45 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn sem var nýtt met hjá félaginu á sínum tíma. Hann spilaði í treyju númer 18 hjá Everton á síðustu leiktíð en Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins, spilaði í tíunni á síðustu leiktíð hjá Everton. Rooney gekk til liðs við bandaríska MLS-félagið DC United í sumar og því var tían laus.

Marco Silva tók við stjórnartaumunum hjá Everton í sumar eftir að Sam Allardyce var látinn taka pokann sinn. Gylfi Þór var fastamaður í liðinu, undir stjórn Allardyce, og skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur þrjú í 25 byrjunarliðsleikjum með Everton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Gylfi Þór þekkir númerið ágætlega en hann hefur spilað í treyju númer tíu hjá íslenska karlalandsliðinu, undanfarin ár. bjarnih@mbl.is