Cavill var valinn kynþokkafyllsti maður heims af Glamour.
Cavill var valinn kynþokkafyllsti maður heims af Glamour. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Cavill er fyrsti leikarinn sem ekki er fæddur í Bandaríkjunum til að skella á sig S-skildinum goðsagnakennda.
Henry William Dalgliesh Cavill fæddist á bresku eyjunni Jersey í Ermasundi árið 1983. Móðir hans var húsmóðir, fædd og uppalin á eyjunni, en faðir hans var verðbréfamiðlari frá Chester í Englandi.

Leikferill Cavill hófst þegar hann var 17 ára gamall og var uppgötvaður af ráðningarstjóra myndarinnar The Count of Monte Cristo, en í kjölfar þess fór hann með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Midsomer Murders og The Inspector Lynley Mysteries áður en hann fór með aðalhlutverkið í myndinni Laguna og hlutverk Albert Mondego í The Count of Monte Cristo.

Cavill vakti athygli fyrir útlit sitt og fékk fjölmörg hlutverk sem æðrulaus, hetjuleg og karlmannleg persóna, dilkadráttur sem hefur fylgt honum út ferilinn.

Hann fór með hlutverk í myndum á borð við I Capture the Castle, Hellraiser: Hellworld, Red Riding Hood og Tristan + Isold á árunum 2003 til 2007, en við tók stórt hlutverk í þáttunum The Tudors, þar sem Cavill lék Charles Brandon, fyrsta hertogann af Suffolk og tengdabróður Hinriks áttunda Englandskonungs. Fyrir leik sinn í The Tudors var Cavill tilnefndur til Golden Globe verðlauna auk þess að vinna Emmy verðlaun árið 2008.

Cavill skaust upp a stjörnuhimininn í janúar 2011 þegar tilkynnt var að hann myndi fara með hlutverk Superman í væntanlegri mynd Zack Snyder um ofurhetjuna geysivinsælu, Man of Steel, en hann er fyrsti leikarinn sem ekki er fæddur í Bandaríkjunum til að skella á sig S-skildinum goðsagnakennda. Cavill var í kjölfarið kosinn kynþokkafyllsti maður heims af Glamour tímaritinu.

Cavill hefur troðið sér í níðþröngan Superman búninginn við tvö önnur tilefni á stóra skjánum, í myndunum Batman v Superman: Dawn of Justice og Justice League, en samhliða þeim hefur hann brugðið sér í hlutverk hinna ýmsu spæjara. Í spæjaramyndinni The Man from U.N.C.L.E. leikur Cavill spæjara frá CIA sem neyðist til að vinna með spæjara frá KGB til að ráða niðurlögum sameiginlegs óvinar Bandaríkjanna og Rússlands í miðju stormsauga kalda stríðsins og í Mission: Impossible - Fallout, sem frumsýnd var í síðustu viku, leikur Cavill spæjarann harðsvíraða August Walker. petur@mbl.is