Úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli Hollendings að nafni Mirjam Foekje van Twuijver leggur að mati Útlendingastofnunar auknar kröfur á stofnunina við einstaklingsbundið mat við ákvörðun um brottvísun úr landi og endurkomubann samkvæmt lögum um...

Úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli Hollendings að nafni Mirjam Foekje van Twuijver leggur að mati Útlendingastofnunar auknar kröfur á stofnunina við einstaklingsbundið mat við ákvörðun um brottvísun úr landi og endurkomubann samkvæmt lögum um útlendinga.

Van Twuijver var dæmd í átta ára fangelsi fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning og tók Útlendingastofnun ákvörðun um brottvísun úr landi og 20 ára langt endurkomubann. Var það m.a. mat kærunefndarinnar að Mirjam væri ólíkleg til að fremja aftur refsivert brot á Íslandi.

Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir að niðurstaðan gefi leiðbeiningar um það með hvaða þætti skuli meta í einstökum málum. Hingað til hafi framkvæmdin verið sú að þeim sem stæðu að fíkniefnainnflutningi væri vísað brott.

Þröskuldurinn hækkaður

„Í þessum málum fer þó alltaf fram einstaklingsbundið mat og löggjöfin mælir fyrir um það að háttsemi viðkomandi þurfi að gefa til kynna að hann kunni að fremja refsivert brot á ný,“ segir Þorsteinn. „Við höfum skoðað úrskurðinn og teljum að hann leggi á okkur auknar kröfur um þetta einstaklingsbundna mat og við tökum það til okkar. Vissulega má segja að nefndin sé að flytja þröskuldinn og setja markið hærra. Ekki þannig að fallið sé frá því að hægt sé að vísa brott einhverjum sem standa t.d. að innflutningi fíkniefna, heldur þurfi alltaf að fara fram þetta einstaklingsbundna mat og meta þetta út frá hverjum og einum,“ segir hann og nefnir að eðli brota í fíkniefnainnflutningi geti verið misjafnt.

„Í þessu máli hefur viðkomandi einstaklingur verið nefndur þessu nafni, „burðardýr“. Þannig gæti verið að eðli brotsins sé ekki slíkt að það gefi til kynna að viðkomandi sé líklegur til að fremja refsivert brot á ný. Það má bera þetta saman við einstakling sem skipuleggur fíkniefnainnflutning og þá er eðli brotsins orðið annað,“ segir Þorsteinn. jbe@mbl.is