Þeistareykir Hluti vinnubúða Landsvirkjunar og verktaka við Þeistareykjavirkjun. Skipulagsgjald Þjóðskrár hefur nú verið fellt úr gildi.
Þeistareykir Hluti vinnubúða Landsvirkjunar og verktaka við Þeistareykjavirkjun. Skipulagsgjald Þjóðskrár hefur nú verið fellt úr gildi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki er heimilt að innheimta skipulagsgjald af vinnubúðum starfsmanna sem settar eru upp á framkvæmdasvæðum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki er heimilt að innheimta skipulagsgjald af vinnubúðum starfsmanna sem settar eru upp á framkvæmdasvæðum. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi álagningu gjalds vegna starfsmannaíbúða sem settar voru upp á framkvæmdasvæðum á Þeistareykjum og við Bakka vegna atvinnuuppbyggingar þar. Yfirmaður hjá Þjóðskrá reiknar með að verklagi verði breytt í framhaldinu.

PCC BakkiSilicon fékk leyfi Norðurþings til að setja upp vinnubúðir tímabundið í nágrenni kísilversins á meðan unnið var að byggingu þess. Búðirnar voru fluttar frá framkvæmdasvæði álversins í Reyðarfirði. Sömuleiðis fékk Landsvirkjun heimild Þingeyjarsveitar til að reisa vinnubúðir við Þeistareykjavirkjun. Hluti þeirra hafði áður verið notaður við Kárahnjúkavirkjun og Búðarhálsvirkjun. Voru sumar allt að 30 ára gamlar og höfðu verið notaðar við ýmsar framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar án þess að skipulagsgjald hafi verið lagt á.

Þjóðskrá Íslands mat vinnubúðirnar til brunabóta og hóf innheimtu skipulagsgjalds í kjölfar þess. 4,6 milljónir voru lagðar á Norðurþing vegna búðanna á Bakka og tæpar 1,7 milljónir á Landsvirkjun vegna Þeistareykja.

Lagastoð skortir fyrir skatti

Samkvæmt skipulagslögum á að greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að húseiningar Landsvirkjunar á Þeistareykjum hafi ekki getað talist nýbyggingar eða nýreist hús sem virða skuli til brunabóta. Til þess þurfi þær að vera jarðfastar og varanlega skeytt við jörð sem vinnubúðirnar voru ekki. Skorti álagninguna því lagastoð. Var álagningin felld úr gildi. Álagning skipulagsgjalds á hendur Norðurþingi var einnig felld úr gildi en það var gert með þeim rökum að innheimtunni hafi verið beint gegn röngum aðila, sveitarfélaginu í stað PCC.

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár, telur að vinnubúðirnar fyrir norðan séu fyrstu búðirnar sem lagt hafi verið skipulagsgjald á. Hún segir að túlkun úrskurðarnefndarinnar hafi áhrif á verklag Þjóðskrár í sambærilegum málum í framtíðinni. Tekur þó fram að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort farið verði með málin fyrir dómstóla.

Ástríður segir að umræddar vinnubúðir uppfylli að mörgu leyti skilyrði sem gerð eru til fasteigna. Til dæmis sé heimilt að skrá lögheimili þar og sveitarfélögin hafi tekjur af þeim. Telur hún ástæðu fyrir löggjafann til að skoða betur hvernig hátta eigi skráningu og álagningu gjalda á þessar eignir.