Þáttaskil Aldrei fyrr hefur Gæslan notast við búnað (HIFR) sem gerir þyrlum hennar kleift að taka eldsneyti á ferð.
Þáttaskil Aldrei fyrr hefur Gæslan notast við búnað (HIFR) sem gerir þyrlum hennar kleift að taka eldsneyti á ferð. — Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar af stað um kvöldmatarleytið í gær til að sækja veikan einstakling um borð í skemmtiferðaskipi 200 km norðaustur af Melrakkasléttu.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar af stað um kvöldmatarleytið í gær til að sækja veikan einstakling um borð í skemmtiferðaskipi 200 km norðaustur af Melrakkasléttu. Þegar Morgunblaðið ræddi við Landhelgisgæsluna í gærkvöld var aðgerðin enn yfirstandandi en búið var að hífa hinn veika um borð í þyrlu gæslunnar. Var hún á heimleið en flugið er með lengri flugum sem Landhelgisgæslan hefur farið í.

TF-GNA í viðbragðsstöðu

„Þetta er með lengri flugum. Hún var rétt að klára hífingar. Þetta er veikur einstaklingur um borð í skemmtiferðaskipi sem þarf að komast á spítala. Af því þetta er svona langt þá sendum við hina þyrluna okkar, TF-GNA, austur á Þórshöfn þar sem hún er núna [í gærkvöldi] í viðbragðsstöðu til aðstoðar ef eitthvað kemur upp á hjá hinni þyrlunni,“ segir Guðmundur Rúnar Jónsson, vaktstjóri hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en TF-LIF fór í flugið. „Þetta er vinnuregla. Ef þær þurfa að fara meira en 20 sjómílur frá landi þá þurfum við að hafa aðra þyrlu til taks til að sækja þá sem eru um borð í vélinni ef hún fer í sjóinn.“

Hann segir að flugið í heild sé rúmir fimm klukkutímar. „Þeir fóru í loftið 18:31 og komnir að skipinu 21:30 og búnir að hífa 21:45. Þetta voru þrír tímar að skipinu og kortérs híf og svo væntanlega tæpir þrír tímar aftur heim.“

Föst áhöfn TF-LIF fór í flugið, flugstjóri ásamt flugmanni, spilmanni, sigmanni og lækni. Að sögn Guðmundar gekk aðgerðin vel og bætti hann því við að nú væri aðeins beðið eftir því að fá mennina heim. Flogið var með sjúklinginn á Landspítalann.

Aðspurður segir Guðmundur orðið langt síðan Gæslan hafi verið send í svona langt flug. „Yfirleitt þegar við förum í svona langt flug þá er það út á Reykjaneshrygg sem er bara beint frá Reykjavík en þetta er hinum megin á landinu þannig að nú þurfum við að treysta á þessar eldsneytisstöðvar sem við höfum á þessum útnesjum. Vill svo til að við erum með eldsneyti, til dæmis á Þórshöfn, sem kemur að góðum notum,“ segir Guðmundur. Í aðgerð gærkvöldsins sótti TF-LIF eldsneyti í varðskipið Tý á leið sinni út að skipinu. Þá þurfti þyrlan einnig að taka eldsneyti frá skipinu á leið sinni til Reykjavíkur með sjúklinginn.