Mosfellsdalur Hraðakstur hefur verið vandamál á þessum kafla. Gatnamótin fremst á myndinni eru við Æsustaðaveg.
Mosfellsdalur Hraðakstur hefur verið vandamál á þessum kafla. Gatnamótin fremst á myndinni eru við Æsustaðaveg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Mosfellsbær og Vegagerðin hafa í sameiningu staðið að gerð deiliskipulags fyrir Þingvallaveg í Mosfellsdal og næsta umhverfi hans. Skipulagið hefur verið auglýst og er athugasemdafrestur til 9. september n.k.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Mosfellsbær og Vegagerðin hafa í sameiningu staðið að gerð deiliskipulags fyrir Þingvallaveg í Mosfellsdal og næsta umhverfi hans. Skipulagið hefur verið auglýst og er athugasemdafrestur til 9. september n.k. Á Þingvallavegi hafa orðið alvarleg slys. Á dögunum varð banaslys á veginum og í kjölfar þess kröfðust íbúar í Mosfellsdal tafarlausra úrbóta.

Hraðakstur hefur verið mikið vandamál á þessum vegakafla og með þeim framkvæmdum sem stefnt er að á að draga úr hraðakstri.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að hraðamælingar frá árinu 2009 gefi til kynna að 77% ökumanna aki yfir leyfilegum hámarkshraða, sem er 70 km/klst. Meðalhraði mældist 78 km/klst. Kaflinn sem deiliskipulagið nær til er 3,8 kílómetra langur og þar eru 17 vegtengingar. Ein akrein er í hvora átt og er malbikaður stígur fyrir hjólandi og gangandi sunnan megin við veginn.

Hið nýja deiliskipulag gerir ráð fyrir byggingu tveggja hringtorga á Þingvallaveginum, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar, tenging við Laxnes, og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg. Gert er ráð fyrir að þessi framkvæmd muni leiða til þess að meðalhraðinn muni lækka og að í kjölfarið verði hægt að fækka tengingum við Þingvallaveg á þessum vegarkafla. Ætla megi að með lægri meðalhraða og færri vegtengingum dragi úr slysahættu og hljóðmengun.

Byrjað verður á austara hringtorginu, við Helgadalsveg sem er minna en það vestara, vegna aðstæðna. Stærðin er hefðbundin fyrir þessa gerð vegar og gatnamóta.

Hringtorgin eru nógu stór til að langferðabílar komist um og hentar jafnframt vel til að draga úr umferðarhraða.

Samkvæmt upplýsingum frá G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar mun það skýrast hvenær af framkvæmdum verður, þegar ný samgönguáætlun verður afgreidd á Alþingi næsta vetur. „Eftir er að verkhanna og tekur það líklega nokkra mánuði og samhliða verða samningar við landeigendur o.s.frv. eða allt það sem gera þarf,“ segir G. Pétur.

Núverandi undirgöng við Suðurá verða áfram og aðkoma að þeim bætt. Gert er ráð fyrir undirgöngum út frá Æsustaðavegi en endanleg gerð og staðsetning verður ákveðin á framkvæmdartíma. Undirgöng verða staðsett vestan við hringtorgið við Helgadalsveg. Gert er ráð fyrir umferð gangandi, ríðandi og hjólandi um undirgöngin.

Árið 2016 var meðalumferð bíla á dag 2.941 á Þingvallavegi ofan Helgafellsmela. Yfir sumartímann var meðalumferð bíla 4.092 og yfir veturinn 2.087. Umferð á Þingvallavegi hefur vaxið síðustu ár sérstaklega eftir að vegur yfir Lyngdalsheiði var opnaður haustið 2010.

Deiliskipulagstillagan verður til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, til og með 9. september 2018, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér hana og gert við hana athugasemd. Tillagan er einnig birt á heimasíðu Mosfellsbæjar.