Skopelos var helsti tökustaður Mamma Mia árið 2008 og er því hin upphaflega Kalokairi. Íbúar eru tæplega 5.000 og hagur vænkaðist þegar Mamma Mia kom í bæinn.
Skopelos var helsti tökustaður Mamma Mia árið 2008 og er því hin upphaflega Kalokairi. Íbúar eru tæplega 5.000 og hagur vænkaðist þegar Mamma Mia kom í bæinn. — The Greek National Tourism Organisation
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýja Mamma Mia myndin var ekki tekin upp á grísku eyjunni Skopelos líkt og fyrri myndin heldur á króatísku eyjunni Vis.

Nýja Mamma Mia myndin var ekki tekin upp á grísku eyjunni Skopelos líkt og fyrri myndin heldur á króatísku eyjunni Vis. Borgarstjóri Skopelos telur að ferðamenn sem þrá að setja sig í spor söguhetjanna haldi áfram að koma til Skopelos, hún sé hin sanna Mamma Mia-paradís þótt kvikmyndaverinu hafi boðist betri kjör á Vis

Fádæma vinsældir kvikmyndarinnar Mamma Mia urðu til þess að fjöldi ferðamanna á grísku eyjunni Skopelos margfaldaðist. Talað var um „Mamma Mia-áhrifin“ og þeirri vel heppnuðu kvikmynd þakkaðar auknar tekjur og aukin atvinna á eyjunni á erfiðum tímum, en myndin kom út á því herrans ári 2008.

Nú, áratug síðar, gæti samskonar áhrifa farið að gæta en í þetta sinn er aldrei að vita nema þau komi fram á annarri eyju: hinni króatísku Vis. Eyjan er tökustaður nýju Mamma Mia myndarinnar sem frumsýnd var hér á landi í júlí. Nýja myndin er því ekki tekin á sama stað og sú fyrri.

Báðar Mamma Mia-myndirnar eiga þó að gerast á eyjunni Kalokairi, en sú nafngift er hugarfóstur handritshöfunda og er ekki til í raun.

Vinsælt að gifta sig í litlu kirkjunni á klettinum

Margir tökustaðir á Skopelos hafa orðið að vinsælum áfangastöðum ferðamanna sem vilja lifa sig inn í myndina. Einn þeirra er litla kirkjan uppi á klettinum þar sem eftirminnilegt brúðkaup fór fram í fyrri myndinni.

Kvikmyndaferðamennska hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum. Tökustaðir kvikmynda eða þátta hafa þannig orðið að vinsælum áfangastöðum fyrir ferðamenn. Fólk vill upplifa það sem það sér á hvíta tjaldinu með því að heimsækja staðina sjálft. Þetta urðu íbúar Skopelos áþreifanlega varir við í kjölfar þess að Mamma Mia sló í gegn 2008.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Ég hef fengið fyrirspurnir frá fólki út um allan heim. Par frá Englandi spurði hvort það gæti bókað ströndina úr myndinni fyrir brúðkaup. Og ástralskt par vildi endunýja brúðkaupsheitin sín í Ayios Ioannis kapellunni, þar sem brúðkaupið fer fram í myndinni,“ sagði Mahi Drossou, ferðaskipuleggjandi á eyjunni Skopelos, í samtali við Guardian árið 2008 eftir að fyrri myndin kom út.

„Símarnir hætta aldrei að hringja. Fólk hringir stöðugt og spyr hvernig það kemst til Mamma Mia-paradísarinnar,“ sagði borgarstjórinn á eyjunni Christos Vasiloudi við blaðið.

Áhyggjur voru þó uppi á sínum tíma um að sprenging í fjölda ferðamanna á eyjunni yrði viðkvæmri náttúru um megn. Enda hefur verið bent á að kvikmyndaferðamennska geti verið tvíeggjað sverð. Hún getur, eðli málsins samkvæmt, verið tímabundin gæfa fyrir þá staði sem um ræðir. Kvikmyndir gleymast og þá geta tökustaðirnir gleymst líka.

Vinsældir Mamma Mia hafa enst eyjarskeggjum á Skopelos vel og virðast ekki hafa komið niður á náttúruperlum. Mamma Mia-ferðir njóta enn vinsælda og margir sækja eyjuna heim eingöngu vegna aðdáunar sinnar á myndinni frá 2008.

Borgarstjórinn á Skopelos er enn sá sami og fyrir áratug, Christos Vasiloudi, og hann hefur tjáð sig um nýja tökustaðinn. „Við vorum mjög leið yfir þessu því okkur fannst að önnur myndin ætti líka að vera tekin hér. En líklega var þetta bara miklu ódýrara í Króatíu. En þetta er ekkert tap fyrir okkur því Skopelos heldur áfram að vera hina eina sanna Mamma Mia-eyja,“ segir Vasiloudi ákveðinn við Mirror .

Ástæða þess að skipt var um tökustað er einmitt sú að ódýrara var að mynda í Króatíu því þar gat kvikmyndaverið t.d. fengið 20% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar en slíkt er ekki lengur í boði í Grikklandi eftir lagabreytingu 2011. Óvíst er hvort Vis getur farið að búa sig undir holskeflu af Mamma Mia ferðamönnum eða hvort Skopelos tekur áfram við æstum aðdáendum.