Segja má að faraldur gangi yfir landið er snýst um fíkn í ópíumskyld lyf. Þegar þetta er ritað hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar hvorki fleiri né færri en tuttugu dauðsföll sem rekja má til neyslu fíkniefna eða lyfseðilsskyldra lyfja.

Segja má að faraldur gangi yfir landið er snýst um fíkn í ópíumskyld lyf. Þegar þetta er ritað hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar hvorki fleiri né færri en tuttugu dauðsföll sem rekja má til neyslu fíkniefna eða lyfseðilsskyldra lyfja. Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala sagði í viðtali á dögunum að heilbrigðisstarfsfólk tæki mjög glöggt eftir aukningu á neyslu þessara lífshættulegu lyfja og sama má segja um lögregluna sem oftar en ekki er fyrst á staðinn þegar ofneysla á sér stað. Engar staðfestar tölur höfum við þó frá Landlækni um dauðsföll sem beint má rekja til ofneyslu lyfja á þessu ári en öllum er ljóst að um talsverða aukningu er að ræða.

Við verðum að bregðast við af öllu afli. Fjölskylda og vinir Einars Darra Óskarssonar sem lést aðeins 18 ára gamall fyrr á árinu vegna neyslu OxyContin hafa af miklum krafti hrundið af stað herferð gegn þessum skelfilega faraldri undir nafninu „Ég á bara eitt líf“. Þau stofnuðu minningarsjóð þar sem fyrst í stað á að einblína á forvarnir og fræðslu út um allt samfélag. Það er lífsnauðsynlegt að vekja almenning upp af værum blundi. Neysla þessara lyfja virðist vera að ágerast umtalsvert og þá sérstaklega á meðal ungmenna, allt niður í nemendur grunnskóla. Það virðist vera sem meðvitundin um hversu hættuleg þessi lyf eru sé ekki til staðar þar sem þetta eru ekki hin svokölluðu fíkniefni heldur lyfseðilsskyld lyf og því telji einhverjir að þau séu ekki eins skaðleg og raun ber vitni. Allir þeir sem að þessum málum koma vita hins vegar við hvaða djöful er að etja. Þessi lyf, sem sannanlega eru lyfseðilsskyld, ganga kaupum og sölum á svörtum markaði sem þrífst bærilega meðal annars á samfélagsmiðlum. Lyf eru vissulega læknandi og líknandi en ofneysla þeirra og neysla einstaklinga sem ekki þurfa á þeim að halda er skaðleg og lífshættuleg.

Við þurfum að leggja baráttu fjölskyldu og vina Einars Darra lið með öllum okkar ráðum. Saman getum við það. Við skulum opna umræðuna um misnotkun lyfja, auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar og síðast en ekki síst efla meðferðarúrræði fyrir unga fíkla, því svo virðist sem þessi faraldur leggist helst á ungt fólk í blóma lífsins. Við öll getum lagt baráttunni „Ég á bara eitt líf“ lið með því að styðja minningarsjóðinn, með því að tala um skaðsemi lyfjanna, með því að leggja við hlustir, þegar baráttufólkið fer um landið og birtist okkur í fjölmiðlum, og bera út boðskapinn. Stjórnvöld eiga svo að koma með, styðja átakið, fara án tafar í að útbúa sérstök meðferðarrými fyrir unga ópíumfíkla og taka af fullri alvöru þátt í þessari baráttu. Þessi barátta snýst ekki um pólitík heldur líf og dauða og þar stöndum við saman.

Höfundur er þingman Samfylkingarinnar. Helgavala@althingi.is