Tvöföld neitun Stundum verður fólki fótaskortur á tungunni.
Tvöföld neitun Stundum verður fólki fótaskortur á tungunni. — AFP/Getty Images
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stundum er sagt að viðskipti byggist á trausti. Hið sama má segja um tungumálið. Það byggist á því að fólk geti treyst sameiginlegum skilningi á merkingu orðanna og hvað þau standi fyrir; samfélagssáttmálanum um hvað sé fagurt og réttvíst.

Stundum er sagt að viðskipti byggist á trausti. Hið sama má segja um tungumálið. Það byggist á því að fólk geti treyst sameiginlegum skilningi á merkingu orðanna og hvað þau standi fyrir; samfélagssáttmálanum um hvað sé fagurt og réttvíst. Skilningur okkar Vesturlandabúa á friði, frelsi og fögnuði á rætur að rekja til siðbótarinnar og þeirra hugmynda sem leiddu til stofnunar Bandaríkjanna og frönsku byltingarinnar undir lok 18. aldar. Með því að veita Bob Dylan Nóbelsverðlaun í aðdraganda síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum minnti Sænska akademían okkur á þá arfleifð sem hugmyndin um þetta mikla ríkjabandalag stendur fyrir um alla heimsbyggðina: mennskuna, ástina og drauminn um réttlæti handa öllum, sem söngvaskáldið ráma frá Duluth orti og söng um í miðjum víetnamógöngum bandaríska hersins.

Eftir að vinstrisinnað fólk á Vesturlöndum missti trú á kommúnismanum í Austur Evrópu, Kína, Albaníu, Norður Kóreu og Kúbu (í þessari röð) náðist um tíma sátt um frjálslyndar borgaralegar dyggðir í okkar heimshluta – á þeim grunni sem Matthías Johannessen byggði síðar hina nýju stefnu Morgunblaðsins í lok kalda stríðsins þegar Berlínarmúrinn var loksins fallinn. Í barnslegri einlægni trúði fólk því að tími átakastjórnmála væri liðinn, líkt og við héldum að tími fjárhagsvandræða væri að baki árið 2007, og að við tækju samræðustjórnmál um tæknilega útfærslu á því hvernig sem flestum gæti liðið sem best í samfélaginu. Fólk trúði því að nú yrði hægt að láta stjórnmálin snúast um evrópumál, umhverfismál og frjálst aðgengi að internetinu – á meðan þjóðfélagið og trúarbrögðin sæju um sig á sjálfstýringunni.

Svo vöknum við upp af þessum fagra draumi með andfælum og uppgötvum að stór hluti borgaranna getur ekki lesið sér til gagns, skilur varla trúarbrögð og hefur ekki tileinkað sér þann hugmynda- og lýðræðisgrundvöll um frjálslyndi, víðsýni og umburðarlyndi sem hin vel upplýstu vestrænu samfélög hafa byggt tungutak sitt og samfélag á síðustu aldir. Í andvaraleysinu hafa öfund, þröngsýni, græðgi, hatur og fordómar grafið um sig – og skapað jarðveg fyrir einfeldningslegan áróður ómálga lýðskrumara á valdastólum í kringum okkur.

Það er ekki nýtt að ráðamenn snúi upp á merkinguna líkt og Shakespeare lét nornirnar spá fyrir hinum valdasjúka Macbeth um að flátt yrði fagurt og fagurt ljótt en það er nýtt að þeir ráði ekki við tungumálið heldur komist til valda með smáskilaboðum aðstoðarmanna og án þess að kunna einföld atriði á borð við tvöfalda neitun eins og forseti Bandaríkjanna afhjúpaði á dögunum þegar hann reyndi að skera sig úr landráðasnörunni sem hann hengdi um hálsinn á sér á fundinum í Helsinki með Pútín vini sínum – en það er ekki ósennilegt að sá gamli refur kunni vel að beita tvöfaldri neitun ( ekki ósjaldan þrefaldri) þegar mikið liggur við.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is