Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra Jónsdóttir — Ljósmynd/LET
Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er úr leik á opna breska meistaramótinu í golfi eftir erfiðan hring í gær. Hún lék á 77 höggum, fimm höggum yfir pari, og lýkur hún leik á samanlagt sex höggum yfir pari.

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er úr leik á opna breska meistaramótinu í golfi eftir erfiðan hring í gær. Hún lék á 77 höggum, fimm höggum yfir pari, og lýkur hún leik á samanlagt sex höggum yfir pari. Valdís hefur þar með lokið keppni á sínu öðru risamóti en í fyrra vann hún sig inn í opna bandaríska meistaramótið.

Valdís fékk sjö skolla og tvo fugla og komst aldrei á almennilegt flug í gær. Hún lék fyrsta hringinn á fimmtudag á 73 höggum og átti fína möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn eftir fyrsta dag. Hún hafnaði í 106. sæti af 144 keppendum en leikið var á hinum þekkta Royal Lytham and St. Annes-velli.

Pornanong Phatlum frá Taílandi er efst á tíu höggum undir pari og þær Georgia Hall frá Englandi, Mamiko Higa frá Japan og Minjee Lee frá Ástralíu koma þar á eftir á níu höggum undir pari. Útlit er fyrir spennandi baráttu um sigurinn á sunnudag. johanningi@mbl.is